(Ræða í borgarstjórn nóv 2013)
Aðalskipulagið er einskonar stjórnarskrá fyrir þróun borgarinnar næstu tvo áratugina. Ekki nóg með það. Í aðalskipulagstillögunni sem er hér til umfjöllunar er sleginn tónn sem ómar víða um heiminn þessi fyrstu misseri á 21 öldinni. Það eru ákveðnar ástæður fyrir því: Í fyrsta lagi býr nú meirihluti mannskyns í þéttbýli í fyrsta sinn í sögunni. Um 2050 er talið að 75% muni búa í borgum og bæjum en 80 til 90 vesturlandabúa. Í öðru lagi er það að koma æ bestur í ljós að gott byggingarland er takmörkuð auðlind, orka er takmörkuð auðlind og loftmengun, einkum koldíoxíðlosun, er alvarlegt staðbundið og hnattrænt vandamál.
Ég ætla ekki lýsa nákvæmlega útfærslu skipulagsins eða segja frá þeirri miklu þverpólitísku vinnu sem liggur að baki því og staðið hefur í sex ár. Aðrir borgarfulltrúar hafa gert það með miklum ágætum. En mig langar að reyna koma orðum að því sem mætti kalla anda aðalskipulagsins fyrir Reykjavík 2010 til 2030.
Betri nýting
Þéttbýlisvæðing eða borgarvæðing heimsins hefur tvennt í för með sér. Og hvort tveggja hefur gengið eins og rauður þráður í gegnum aðalskipulagsvinnuna. Í fyrsta lagi kallar þróunin á betri nýtingu þessara takmörkuðu auðlinda sem ég var að nefna – og um leið betri nýtingu innviðanna í borginni; svo sem gatna, veitna, lagna, stofnana, skólahúsa, slökkvistöðva og þannig mætti þó nokkuð lengi telja. Um það eru flestir sem fjalla um borgarmál austan hafs og vestan sammála. Mér finnst sjálfsagt að vitna í stórt þing sem samtök amerískra skipulagsfræðinga, skammstafað APA, héldu í Chicago í apríl á þessu ári. Á þetta þing komu um 5000 skipulagsfræðingar, arkitektar, skipulagsfulltrúar og stjórnmálamenn. Nokkrir fulltrúar úr umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur voru svo heppnir að eiga þess kost að sækja þingið, þar á meðal sá sem hér talar.
Mitchell Silver, formaður APA, lagði í ræðu sinni á þessu þingi þunga áherslu á að hagrænir þættir séu teknir með í skipulagsáætlunum borga og bæja. Fjárfestingar eiga að borga sig fyrir samfélagið, sagði hann og kallaði það return on investment. Og svo sagði hann eitthvað á þessa leið:“Það er varla hægt að bera saman hversu miklu hagkvæmara það er að þétta borgirnar, og nýta þannig þá innviði sem fyrir eru, skóla, veitukerfi, vegakerfi, lögreglustöðvar og slökkviliðsstöðvar í stað þess að byggja sífellt ný úthverfi. Svo mikill er munurinn”.
Um daginn kynnti verkfræðistofan Mannvit á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu forvitnilega athugun þar sem bornar voru saman þrjár sviðsmyndir mögulegrar þróunar höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Sú fyrsta gerði ráð fyrir að 60 prósent nýrrar byggðar yrði í hverfum utan núverandi byggðar og að hlutur almenningssamgangna í ferðum borgarbúa yrði óbreyttur, en hann er nú fjögur prósent. Önnur sviðsmyndin gerði ráð fyrir að fimmtán prósent nýrrar byggðar yrði utan núverandi byggðar og hlutur almenningssamgangna yrði tólf prósent. Það er einmitt markmið Reykjavíkur í aðalskipulagstillögunni. Þriðja sviðsmyndin gerir ráð fyrir að öll ný byggð verði innan núverandi byggðar og hlutur almenningssamgangna verði sextán til tuttugu prósent eða fjórum til fimm sinnum meiri en hann er nú. Seinni dæmin tvö voru svo borin saman við það fyrsta.
Niðurstaða Mannvits var sú að ef önnur sviðsmyndin yrði að veruleika væri sparnaðurinn 187 milljarðar til ársins 2040. Þriðja sviðsmyndin, með enn meiri þéttingu, myndi hins vegar spara tæplega 360 milljarða króna miðað við fyrsta dæmið. Meginhluti sparnaðarins kemur til vegna ábata notendanna sjálfra, til að mynda minni kostnaðar vegna bílaumferðar. Þá verði stofnkostnaður vegna öflugra almenningssamgöngukerfis minni en kostnaður við gerð stofnbrauta.
Við erum sem sé að tala um að þétting byggðar og auknar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu geta sparað þjóðarbúinu 187 til 360 milljarða til ársins 2040. Tekið skal fram að þarna er ekki tekið tillit til ýmissa annarra þátta eins og minni veglagningar, gjaldeyrissparnaðar vegna minni notkunar einkabílsins og sparnaðar í bílastæðauppbyggingu.
En orðið þétting út af fyrir sig er ekki sérlega heillandi. Það sýnir sig líka í viðhorfskönnunum að fólk hefur illan bifur á því orði. Af hverju? Jú, það eru gildar ástæður fyrir því. Þéttingin hér í Reykjavík undanfarna áratugi hefur of oft leitt til þess að gömul timburhús voru rifin og gamalt og merkilegt atvinnuhúsnæði sömuleiðiðis, það nægir að nefna gamla og glæsilega Landsímahúið við Sölvhólsgötu 11, Kveldúlfshúsin, stóra og fallega Völundarhúsið. Já, stefnu hins algjöra niðurrifs og hinnar algjöru uppbyggingar hefur verið framfylgt í einum of stórum stíl hér í Reykjavík. Í stað gömlu húsanna koma 12 til 20 hæða turnar sem taka ekkert tillit til umhverfisins. Gamalt og þekkt dæmi frá 6. áratugnum er Morgunblaðsháhýsið við Aðalstræti, mitt í fíngerðri timburhúsaumgjörð Grjótaþorpsins. Nýrri dæmi eru turnarnir við Skúlagötu og á Höfðatorgi.
Aðalskipulagsvinnan tók mið af þessari sögu og þess vegna eru í því skýr ákvæði um hæðir húsa.
Meiri lífsgæði
Þéttingin er nefnilega ekki meginmarkmið þéttingarinnar, heldur betri umhverfisgæði og þar með betri lífsgæði. Um það á þéttingin að snúast. Það er hinn þráðurinn, lífsgæða- og umhverfisgæðaþráðurinn og hann fléttast saman við kröfuna um betri nýtingu, meiri skilvirkni, betri rekstur.
Áhersla á lífsgæðin í borgaumhverfinu sjálfu er rökrétt afleiðing af því að meira en helmingur mannkyns býr í borgum og bæjum. Það er sem sagt í þéttbýlinu sem hlutskipti stórs hluta mannkyns ákvarðast. Ekki er nóg með að við sækjum þangað vinnu, skóla, leikhús, sundlaugar, fótboltaleiki, leshringi og alla þjónustu sem við þörfnumst í okkar flókna og kröfuharða samfélagi, heldur er borgin okkar daglega umhverfi. Borgin tekur á móti okkur þegar við förum út á morgnana í myrkrinu á veturna og í birtunni á sumrin, þegar við fylgjum krökkunum í skólann, förum út í búð, mælum okkur mót við fólk, skreppum í sund, göngum hjólum, hlaupum eftir stígum borgarinnar, leitum til læknis, mætum í brúðkaup og jarðarför. Borgin umlykur okkur frá vöggu til grafar. Borgin er líf okkar. Líf okkar er borgin. Við verðum að fara vel með líf okkar, ágætu borgarfulltrúar og borgarbúar, það gerir það enginn annar en við sjálf. Við erum borgin.
Nákvæmlega þess vegna snýst ein mikilvægasta lífkjarabarátta okkar tíma um borgarumhverfið: að borgarumhverfið sé eins heilsusamlegt og kostur er, öruggt, skjólsælt, aðlaðandi, fjölbreytt, skemmtilegt, fallegt og endurnærandi. Já, einmitt endurnærandi! Við höfum nefnilega sagt skilið við þá gömlu hugmynd, sem var lengi ríkjandi, að borgin sé vélrænn staður þar sem við dveljum á, eiginlega nauðug viljug, til að sækja vinna og skóla á virkum vinnudögum en flýtum okkur síðan burt úr bænum um helgar, því þar úti í sveit í sumarbústaðnum eru lífsgæðin. Þar er lífið í sinni ánægjulegustu mynd en ekki í bænum.
Fagnaðarboðskapur aðalskipulagstillögunnar fyrir Reykjavík 2010 til 2030 er þessi: Borgin býr yfir miklum umhverfisgæðum og lífsgæðum. Kæru Reykvíkingar þið þurfið ekki endilega að fara í sumarbústaðinn í Grímsnesinu til að njóta lífsins. Þið getið ekkert síður notið þess í borginni. Göturnar í borginni eru þannig að það er gaman að rölta um þær, torgin eru skjólsæl og sólrík, þegar sólin skín á annað borð, almenningsgarðarnir eru fallegir, göngu- og hjólastígarnir sem liggja meðfram magnaðri strandlínu, inn græna og friðsæla dali og út í ævintýralandslagið með hraunum og skógum austur af borginni.
Þessi rauði þráður, fléttaður saman úr kröfunum um meiri hagkvæmni í skipulagi og rekstri og meiri lífsgæði í borgarumhverfinu eins og ég hef lýst, er ekki alíslenskur spuni og þaðan af síður heilaspuni eða pólitískur spuni. Þessi þráður er rauður þráður í öllum borgum austan hafs og vestan þar sem er einhver metnaður í gangi. Hann má sjá mjög skýrt hjá jafn ólíkum stofnunum og borgarstjórn Reykjavíkur, APA samtökum bandarískra skipulagsfræðinga og ótal ráðgjafa og lífsskoðunarfyrirtækjum sem eru sífellt að kynna lista yfir lífvænlegustu borgir í heimi og rökstyðja hvað liggur að baki valsins hverju sinni.
Sama er að segja um merkilegar skýrslur sem byggðastofnun Sameinuðu Þjóðanna UN Habitat hefur látið vinna undanfarin ár um vandamál og tækifæri í borgarþróun á 21. öldinni. Ég hef stundum vitnað í þær þegar ég hef rætt aðalskipulagið. Ég ætla ekki að endurtaka það hér á þessum stað, heldur læt ég nægja að vitna í frétt sem ég las í Morgunblaðinu rétt áðan. Þar segir að fólk bæti heilsu sína með því að hjóla í vinnuna og að það geti slakað á í strætó í staðinn fyrir að takast á við stressandi borgarumferðina. Það eru reyndar ekki nýjar fréttir. Það eru heldur ekki nýjar fréttir að þessir ferðamátar henta ekki öllum.
Fréttin er sú að þessir ferðamátar eru ekki eins tímafrekir og ferðir í einkabíl. Þetta er niðurstaða B.Sc.-ritgerðar Jónatans Atla Sveinssonar í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Niðurstaðan fæst með því að leggja saman þann tíma sem fer í að fara til og frá vinnu og þann tíma sem það tekur meðalmanninn að vinna fyrir ferðalaginu.
Ég er ekki viss um að þessi litla frétt breyti miklu. En hún, og ótal aðrar fréttir sem nú berast frá borgum austan hafs og vestan, styðja þá sannfæringu mína að við séum á réttri leið þegar við fylgjum rauða þræðinum í aðalskipulaginu.