Gæsamamma lá á milli tveggja þúfna við Tröllagilslæk og þóttist vera dauð. Steggurinn hennar hljóp fram og aftur og vældi. Ég hafði ekki ætlað að gera þeim bilt við en nú var það of seint. Gæsamamma stökk í burtu og gargaði reiðilega. Ég hikaði eitt augnablik en gekk síðan alveg að hreiðrinu. Þar voru tveir mosagrænir hnoðrar og tvö hvít egg. Hnoðrarnir voru alveg kyrrir en svo lyftu þeir hausnum upp og sáu ekki neitt. Hreiðrið þeirra var fislétt dúnábreiða. Það var eins og henni hefði verið tyllt á jörðina og hún gæti fokið í burt hvenær sem væri.

Áttundi júní árið 2006. Kvöld. Ég kom gangandi eftir Sauðafellsöldu í gulum stakk og hafði allt mitt hafurtask á bakinu: Tjald, lélegan svefnpoka, sjálfuppblásandi dýnu, flísteppi, prímus og norskan þurrmat til sex daga. Við beltið hékk léttur Bushnell-kíkir og norskur fjallahnífur. Það hafði verið heitt um daginn en kvöldið var svalt. Ég sló upp tjaldinu á bökkunum þar sem Tröllagilslækur rennur í Jöklu, rétt fyrir sunnan Kárahnjúka. Himinninn var appelsínugulur og rauður. Árbakkinn var þéttsetinn af gæsum sem lágu á hreiðrum sínum. Steggirnir stóðu órólegir á verði og reyndu að lokka mig burtu en gæsamömmurnar lágu sem fastast og teygðu hálsinn fram alveg niðri við jörðu. Í hreiðrunum voru þrjú og upp í sjö eða átta egg. Það var allt útdritað í kringum hreiðrin og nokkur þeirra virtust yfirgefin og eggin orðin köld. Uppi á háum malarkambi sóttu tröllvaxnar búkollur efni í eina hæstu stíflu Evrópu. Eftir tæpa þrjá mánuði verður rennsli árinnar stöðvað, ef áætlanir Landsvirkjunar ganga eftir. Þá verður þetta tjaldstæði og öll gæsahreiðrin á hundrað og þrjátíu metra dýpi.

Það var í mér einhver kvöldhrollur. Af hverju í fjandanum er ég á þessum þvælingi einn uppi á reginfjöllum? hugsaði ég á tjaldskörinni um leið og ég sauð vatn í kvöldverðinn: Steinbitsgryte med marenierte reker. Af hverju í fjandanum er ég ekki heima hjá mér með kaldan bjór að horfa á heimsmeistarakeppnina? Jú, ég hafði tvisvar áður gengið um þetta svæði með ferðafélaginu Augnabliki um miðjan júlímánuð. Ég hafði hrifist af náttúrufegurðinni við Jöklu; gljúfrunum, Rauðuflúð, Töfrafossi, Vesturöræfum, Kringilsárrana, sethjöllunum og öllum gróðrinum. En um miðjan júlí eru gæsarungarnir löngu farnir úr hreiðrunum og hreindýrskálfarnir orðnir að styggum unglingum. Mig langaði til að sjá hreiður og egg, mig langaði til að sjá þúsund gæsamömmur og þúsund gæsasteggi, mig langaði til að sjá þúsund unga skríða úr þúsund eggjum, mig langaði til að sjá stórar hreindýrahjarðir með mörg hundruð nýborna kálfa á beit í Hálsinum á Vesturöræfum eða inni á Kringilsárrana. Mig langaði sjá aftur fálkahreiðrið við ármót Kringilsár og Jöklu og mig langaði að heyra sólskríkjuna syngja fyrir mig á klettasnös við kolmórauða jökulá. Já, mig langaði til að upplifa allt þetta líf sem þrífst í gróðursælum hlíðunum við Jöklu milli Kárahnjúka og Brúarjökuls síðasta vorið áður en öllu þessu svæði verður sökkt. Það var þess vegna sem ég gerðist boðflenna í ríki dýranna í sex daga aðra vikuna í júní.

Tjaldstæði á KringilsárranaÉg tjaldaði í tvær nætur í nafnlausum hvammi við ármót Kringilsár og Jöklu rétt við kláfinn yfir á Kringilsárrana sem Guðmundur Ármannsson, bóndi á Vaði í Skriðdal, og hans fólk setti upp í fyrra. Gróður er lítið farinn að taka við sér á fjöllum aðra vikuna í júní en það er samt varla hægt að hugsa sér fegurra tjaldstæði. Kringilsáin ólmast hvítfyssandi í gegnum tignarlega stuðlagátt og sameinast Jöklu sem breiðir úr sér sementsgrá á víðáttumiklum eyrum. Í austri gnæfir snæviþakið Snæfell. Ég sneiddi döggvotar lyngbrekkur upp með Kringilsá að Töfrafossi sem liggur hæst allra fossa á Íslandi. Hann er við efri mörk lónsins í 625 metra hæð og fer á kaf þegar lónið verður fullt. Á leiðinni niður að tjaldstæðinu kom ég að fimm ungum í hreiðri sem reyndu að elta mig en ég var frárri á fæti en þeir enda lappalengri. Og ég kom að moldarbakka í 600 metra hæð yfir sjávarmáli þar sem gróðurmoldin er um þriggja metra þykk. Það hlýtur að hafa tekið náttúruna 10.000 ár að mynda alla þessa mold inni við Töfrafoss.

Á fjórða degi þessarar gönguferðar á tilvonandi lónsbotni stóð ég á háum sethjalli inni á Kringilsárrana og virti fyrir mér hreindýrahjörð á hálsinum hinum megin við Jöklu. Þetta voru um það bil tvö hundruð kýr, hvítar, háleggjaðar og mjóslegnar, sýndist mér, og hver einasta þeirra með lítinn brúnleitan kálf. Þeir hafa ekki verið mikið meira en viku gamlir og léku sér eins og lömbin á vorin. Fengitími hreindýranna er í lok september og fram eftir október. Kýrnar bera að vori einum kálfi, burðartíminn er frá fyrstu viku í maí og fram í júníbyrjun. Þetta mun vera helsta burðarsvæði hreindýra á Íslandi. Náttúrufræðingar segja að það sé engin tilviljun, þarna á Hálsinum og í Kringilsárrana sé snjólétt, skjólgott, staðviðrasamt og nóg beit. Ég fór að velta því fyrir mér, í sólskini og blíðuveðri þarna uppi á sethjallinum, af hverju í ósköpunum væri ekki búið að gera vandaðar heimildarmyndir um dýralífið á hálsinum við Jöklu og á Kringilsárrana. Við Íslendingar dáumst að dýralífsmyndum Davids Attenboroughs og gerum hann að heiðursdoktor við Háskóla Íslands. Og við flykkjumst á franskar kvikmyndir um farfugla og keisaramörgæs. Af hverju erum við alltaf að dást að því sem aðrir gera? Hvað um okkar eigið land og þau villtu dýr sem hér eru? Er ekkert varið í það? Íslensk náttúra er notuð sem bakgrunnnur í bílaauglýsingar og kúlissa í James Bond-myndum. Það er ágætt svo langt sem það nær. En hvað um þessa stóru hjörð hvítra hreindýra sem bera hér á hverju vori og hlaupa svo upp og niður hálsinn með kálfana sína með Snæfell í bakgrunni? Þetta er stórfengleg sýn. Af hverju er ekki búið að gera heimildarmynd á heimsmælikvarða þar sem við fylgjumst með kálfunum fæðast og fyrsta sumrinu í lífi þeirra, fyrsta haustinu, fyrsta vetrinum? Getur verið að Íslendingar beri nákvæmlega enga virðingu fyrir umhverfi sínu og fyrir sjálfum sér í þessu umhverfi. Þremur vikum áður en ég lagði í þessa gönguferð lýsti Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi iðnaðarráðherra, því yfir í viðtali við sjónvarpsfréttastöðina NFS að það væri “engin sérstök náttúrufegurð” í því landsvæði sem færi undir Hálslón og hún sagði það eins og það væru alkunn sannindi. Ef Valgerði finnst lítið til koma, hugsaði ég uppi á sethjallinum á Kringilsárrana, hvað finnst henni þá eiginlega um restina af Íslandi?

Fleiri íslenskir stjórnmálamenn hafa tekið í svipaðan streng og Valgerður. Siv Friðleifsdóttir sagði í sjónvarpsviðtali þegar hún var umhverfisráðherra að sér þætti ekki mikið koma til Eyjabakka. Í ræðu á Alþingi hæddi sjálfstæðismaðurinn Einar Oddur Kristjánsson Gnúpverja, þegar þeir héldu baráttusamkomu í Austurbæjarbíói haustið 2002 til að mótmæla virkjunaráformum við Þjórsárver, og sagði að þar hefði fólk sungið Ísland ögrum skorið “tárvott yfir nokkrum nástráum”. Samflokksmaður hans Guðjón Guðmundsson lét hafa eftir sér um svipað leyti að lítið væri að sjá nema grjót og mela í Þjórsárverum. Og Tómas Ingi Olrich, sendiherra í París, sagði í fyrra í viðtali við franska útivistarblaðið Track að það væri bara eyðimörk sem færi undir vatn við Kárahnjúkavirkjun. Hver ætli ástæðan sé fyrir slíkum viðhorfum til einu gróðurvinjanna á íslenska hálendinu, einu svæðanna þar sem ríkulegt líf villtra dýra þrífst á Ísland? Já, svona líf eins og við dáumst að í myndum Attenboroughs. Af hverju skyldu íslenskir stjórnmálamenn vera svona kaldhæðnir? Er kaldhæðnin úthugsuð aðferð eða eru þetta bara ósjálfráðir kippir í talfærunum?

hreindýrahræ á KringilsárranaKárahnjúkavirkjun mun valda víðtækustu umhverfisbreytingum á Íslandi sem orðið hafa vegna einnar framkvæmdar. Áhrifasvæði virkjunarinnar telst vera um 3.000 km2 en sjálft Hálslón verður á stærð við Hvalfjörð og mun þekja um 57 km2 lands sem er að miklu leyti gróið og hefur verið griðland heiðagæsa og hreindýra. Sem kunnugt er lagðist Skipulagsstofnun gegn framkvæmdum við Kárahnjúkavirkjun í ágúst 2001. Í úrskurði stofnunarinnar segir að virkjunin muni hafa “umtalsverð umhverfisáhrif” og að ekki hafi verið sýnt fram á að “annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin mun fyrirsjáanlega hafa”. Það er einnig athyglisvert, þegar þetta plagg er lesið á netinu fimm árum síðar að Skipulagsstofnun hefur efasemdir um að áætlanir Landsvirkjunar tryggi “fullnægjandi kynningu og umfjöllun meðal stofnana, almennings og félagasamtaka.” Hinn 20. desember sama ár felldi umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir úrskurð Skipulagsstofnunar úr gildi og heimilaði virkjunina með vissum skilyrðum þó. Rétt er að halda því til haga að 43 alþingismenn samþykktu síðan virkjunarleyfið, níu voru á móti, tveir sátu hjá. Það er samt ekki alveg víst að sú afgreiðsla þingsins hafi endurspeglað vilja þjóðarinnar. Í ágúst 2001 gerði Pricewaterhouse Coopers ítarlega skoðanakönnun en samkvæmt henni var helmingur þjóðarinnar á móti Kárahnjúkavirkjun. Helmingur með.

Íslendingar þurfa auðvitað að nýta landið. En er hægt að segja að þetta stóra og gróðursæla svæði milli Kárahnjúka og Brúarjökuls sé vannýtt. Ég sé ekki betur en það sé frábærlega vel nýtt af gæsum og hreindýrum. En kannski hafa dýr alls engan rétt? spurði ég mig á sethjallinum á Kringilsárrana. Fyrir nákvæmlega hundrað árum kom út í Svíþjóð fyrra bindið af sögunni um Nilla Holmgeirsson eftir Selmu Lagerlöf. Sagan fjallar um Nilla sem er hyskinn og latur og vondur við dýrin heima hjá sér. Húsálfur breytir honum í þumaling og þannig sest hann á bakið á Marteini aligæsastegg sem lætur loksins verða af því að hefja upp sinn þunga búk og slást í för með villigæsunum á leið þeirra norður í land. Sagan af Nilla Holmgeirssyni er ævintýri um landið, náttúruna, dýrin og mennina, ævintýri um heimkynni sænskra barna. Ég nefni hér þessa uppáhaldssögu vegna þess að í henni býr einhver djúpur skilningur á að menn og dýr búi ekki í sitt hvorum heiminum, heldur eigi þau sameiginleg heimkynni sem kallast náttúra. Sumir heimspekingar og mannfræðingar halda því reyndar fram að þannig sé það alls ekki því maðurinn eigi einmitt ekki heima í náttúrunni. Hann sé, öfugt við dýrin, algerlega eðlishvatalaus og þar með bjargarlaus í náttúrunni. Heimkynni mannsins, segja þeir, er ekki náttúra heldur tilbúinn veruleiki sem kallast menning: verkfæri, eldur, skýli, föt, tungumál, vopn, hús, vegir, rafmagn, bæir, borgir, bílar, flugvélar, leikhús, tónlist, tölvur. Þetta viðhorf leiðir ekki endilega til þess að maðurinn telji sig geta framið öll þau náttúruspjöll sem hann vill og farið með dýrin eins og honum sýnist. Það er bara gengið að því sem vísu að það sé óbrúanleg hyldýpisgjá milli manns og dýrs, menningar og náttúru. En er sú gjá líffræðileg staðreynd eða einhvers konar óskhyggja mannsins sem álítur sig vera kórónu sköpunarverksins? Samkvæmt nánari skoðun erfðavísinda er nánast enginn munur á manni og dýri. Ég held líka að börn hafi aldrei skilið né skynjað neina slíka gjá í tilverunni. Nilli Hólmgeirsson flaug yfir hana á Marteini gæsastegg eins og ekkert væri.

Kringilsárrani er hjartalaga háls milli Jöklu í austri og Kringilsár í vestri en í suðri afmarkast hann af Brúarjökli. Hann er vel varinn frá náttúrunnar hendi, ekki einu sinni sauðkindin hefur lagt í árnar. En þegar íslenski hreindýrastofninn var í lágmarki á fjórða áratug aldarinnar, var varla að finna hreindýr nokkurs staðar á Austurlandi nema á Kringilsárrana. Árið 1974 friðlýsti Náttúruverndarráð ranann sem griðland hreindýra. Árið 2003 minnkaði Siv Friðleifsdóttir friðlandið um fjórðung. Syðsti hluti ranans og allur austurhlutinn munu fara undir vatn þegar vatni verður hleypt á Hálslón.

Ég hef aldrei komið á stað sem er svo þrunginn framandi lífi. Gæsafjaðrir, gæsaskítur, sérkennilegar dýragötur, veðruð hreindýrshorn, ókunnugleg spor og krafs á leirkenndum moldarbakka, fuglshræ og hreindýrshræ. Ég get ekki lýst þessu lífi öðru vísi en sem framandi. Þarna eru engar kunnuglegar kindagötur, lambaspörð, leitarmannakofar, ummerki eftir mannferðir, hjólför, tjaldstæði. Það er önnur lykt í loftinu á Kringilsárrana, þar ríkja einhver lögmál sem ég þekki ekki. Það er engu líkara en maður fái á Kringilsárrana svolitla nasasjón af lífinu á jörðinni án mannsins. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að það líf sé betra eða verra, það er bara öðru vísi, það er framandi og það er óendanlega heillandi. Og jú, ég held að líf mannsins verði stærra og merkilegra ef slík griðlönd fá að vera til? Tvær sólskríkjur sungu fyrir mig á klettasnös inni við Illukvísl. Ég var í tjaldi í tvær nætur á Kringilsárrana og borðaði norskan “turmat”.

 

á Kringilsárrana