Í október 1969 hélt Willy Brandt, nýkjörinn kanslari Jafnaðarmanna í Vestur-Þýskalandi, merkilega stefnuræðu fyrir ríkisstjórn sína í þýska þinginu. Við getum ekki skapað fullkomið lýðræði, sagði Brandt, en við viljum samfélag sem býður meira frelsi og krefst meiri samábyrgðar. Hann lofaði þjóðinni líka auknu gagnsæi í stjórnsýslunni og sagði að ríkisstjórn sín myndi lækka kosningaldur og lögráðaaldur. Ein setning ræðunnar er fyrir löngu orðin eins konar orðatiltæki: „Við viljum hætta á meira lýðræði“ (Wir wollen mehr Demokratie wagen).
Þessi yfirlýsing er áhugaverð vegna þess að Vestur-Þýskaland var á þessum tíma þróað lýðræðisríki sem státaði af einni merkustu stjórnarskrá 20 aldarinnar. Í henni er krafan um mannréttindi, burtséð frá þjóðerni, ríkisfangi og kynþætti, sett ofar öllum öðrum kröfum. En lýðræði er ekki föst stærð. Hin stutta saga lýðræðisins er saga mikillar baráttu og stöðugra umbóta. Fullkomið lýðræði er ekki til. Það er ekki einu víst að lýðræði sé trygging fyrir réttlátu þjóðfélagi.
Fulltúalýðræði og beint lýðræði
Hrun fjármálakerfisins árið 2008 hefur kallað fram spurningar um útfærslur lýðræðisins, stjórnskipan landsins og hlutverk stjórnmálaflokka. Lýðræðisumræður hafa því verið með fjörugasta móti undanfarin misseri. En þær einkennast um leið af vantrausti. Í skoðanakönnunum mælist traust til sjálfrar löggjafasamkundunnar, Alþingis, næstum því ekki neitt. Í sama mæli hefur umræða um opnara og virkara lýðræði elfst og krafan um beint lýðræði fengið æ meiri þunga.
Í beinu lýðræði taka borgararnir ákvarðanir sem eru bindandi fyrir samfélagið á fundum eða í kosningum. Í fulltrúalýðræði kjósa borgararnir fulltrúa sem taka slíkar ákvarðanir. Þannig er það í nær öllum lýðræðisríkjum. Fulltrúalýðræði er ríkjandi stjórnarfyrirkomulag. Ástæðan er sú að það er nánast útilokað að allir geti kosið um öll mál í hinum flóknu og stóru samfélögum nútímans. Það kann reyndar að vera mögulegt fræðilega séð í krafti hinnar öflugu og hraðvirku upplýsinga- og samskiptatækni samtímans. Ekkert ríki hefur þó tekið það skref að leggja fulltrúalýðræðið niður.
Þekktasta tilbrigðið við beint lýðræði eru þjóðaratkvæðagreiðslur. Eins og kunnugt er eru þær tíðar í Sviss en þær eru fremur sjaldgæfar annars staðar. Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur er að finna í flestum stjórnarskrám evrópskra ríkja. Yfirleitt eru þær viðhafðar við ákveðin tilefni sem varnagli við fulltrúalýðræðið. Það getur verið misjafnt hvort litið er á þær sem bindandi eða ráðgefandi. Í nokkrum ríkjum, til að mynda Þýskalandi, eru þær ekki tíðkaðar.
Í íslensku stjórnarskránni frá 1944 er mælt fyrir um þjóðaratkvæðagreiðslu í 26. grein sem fjallar um málskotsrétt forsetans. Hún veitir forsetanum heimild til að synja lagafrumvörpum, sem alþini hefur samþykkt staðfestingar. Ef hann gerir það skal leggja frumvarpið undir atkvæði allra konsingabærra manna eins fljótt og kostur er.
Fyrstu 50 ár lýðveldins beitti enginn forseti þessum rétti sínum. Almenn var talið að hið mikla vald sem stjórnarskráin veitir forsetanum væri eingöngu táknrænt. Þó voru ýmsir til sem héldu því fram að málskotsrétturinn væri virkur og hann hefði frá upphafi verið hugsaður sem leið fyrir þjóðina til að tempra vald þingsins. Óhætt er að segja að allt hafi breyst þegar Ólafur Ragnar Grímsson beitti synjunarréttinum 2004 og neitaði að skrifa undir lagafrumvarp um fjölmiðla og svo aftur árin 2010 og 2011 þegar hann neitaði að skrifa undir lög um svo svokallað icesave-samninga. Ákvörðun hans olli miklu uppnámi. Forsetinn var ýmist sakaður um að hafa afnumið þingræðið eða hann var lofaður fyrir að hafa komið í veg fyrir að alþingi legði skuldabyrði einkarekinna fjármálafyrirtækja á þjóðina.
Segja má að ákvörðun forsetans að beita synjunarréttinum hafi leitt til stjónarkreppu. Það er vægast sagt óheppilegt að ekki er sátt um hvernig túlka beri greinar stjórnarskrárinna um vald forsetans. Hlutverk stjórnarskrárinnar er að kveða skýrt á um hvar valdið liggur í samfélaginu. Stjórnarskrár eru til að skapa festu sem kemur í veg fyrir að samfélagið sé undirorpið geðþóttaákvörðunum valdhafanna.
Vinsældir lýðræðis
Síðustu 200 árin hefur það verið almennt viðurkennt, í krafti frjálslyndisstefnu og upplýsingastefnu, frönsku byltingarinnar og bandarísku sjálfstæðisyfirlýsingarinnar, að uppspretta valdsins í þjóðfélögunum er hjá fólkinu en ekki hjá guði eins og einvaldar fyrri alda héldu fram.
Meira að segja einræðisherrar á 20. öld komust ekki hjá því að tala í nafni fólkins, lýðræðisins. Þeir áttu allt sitt undir því að hafa stóran hluta fólksins á sínu bandi. Franco kallaði sitt stjórnfyrirkomulag „lífrænt lýðræði“. En handan við Berlínarmúrinn var kommúnískt ríki sem kallaði sjálft sig Þýska Lýðræðislýðveldið (Deutsche Demokratische Republik). Hugmyndafræði kommúnismans gekk meðal annars út á það kommúnisminn væri beint og milliliðalaust lýðræði. Vilji flokkins var samkvæmt skilgreininu vilji fólksins.
Bókstaflega þýðir orðið lýðræði að fólkið ráði. Það setur sjálfu sér reglur. Gríska orðið demokratia er sett saman úr orðunun demos (lýður) og kratos (regla). Lýðræðið sem ákveðin stjórnregla er forngrísk og þar með evrópsk uppfinning sem hefur breiðst um allan heiminn í lýðræðisbylgjum 19. og 20. aldar.
Einhver stærsta lýðræðisbylgja sögunnar hófst þegar Berlínarmúrinn féll og þjóðir austantjaldsríkjanna vörpuðu af sér oki kommúnismans. Reyndar hefur tekist misvel til sem kann að stafa af því að sum þessara landa eiga nær enga lýðræðissögu. Lýðræðið, og reyndar efnhagsleg velmegun líka, virðist vera öflugast í þeim austuevrópsku löndum sem hafa á síðustu árum sótt um og fengið aðild að Evrópusambandinu. Á útmánuðum 2011 hófst barátta fyrir auknu lýðræði í nokkrum ríkjum Norðurafríku, þegar einræðisherrum í Túnis og Egyptalandi var velt úr stóli. Ekki sér enn fyrir endann á lýðræðisbylgjunni í þessum heimshluta og í miðausturlöndum.
Mikilvæg ástæða fyrir þessum vinsældum er áreiðanlega sú að nútímalýðræðisríki tryggja borgurunum bæði frelsi, jafnræði og réttaröryggi. Önnur ástæða gæti verið sú að blómleg viðskipti, öflugt efnahagslíf og mikil nýsköpun einkenna flest lýðræðisríki. Því hefur til að mynda verið haldið fram að hinar gríðarlegu framfarir sem hafa orðið á svið upplýsinga- og samskiptatækni síðustu 30 árin í krafti tölvuvæðingar samfélaganna og internetsins, hafi aðeins verið mögulegar í lýðræðisþjóðfélögum. Óheft upplýsingaflæði og frjáls samskipti verða seint sérstakt keppikefli einræðis og alræðisríkja.
Mannréttindi
Lýðræðið gefur fögur fyrirheit um að fólkið ráði og nákvæmlega þess vegna fylgir því margháttaður vandi. Aristoteles taldi lýðræðið byggðist á þeirri hæpnu hugmynd að vegna þess að menn eru jafnir í sumu hljóti þeir að vera jafnir í öllu. Hann taldi að lýðræðið væri ekki nema hænufet frá skrílræði. Því færi best á því að borgríknu yrði stjórnað í gegnum stjórnmál þar sem hinir hæfustu ræddu málin í þaula og tækju upplýstar ákvarðanir fyrir samfélagið (aristokratie). Vert er að hafa í huga að þegar Forn-Grikkir töluðu um demokratie áttu þeir við beint lýðræði og um leið einfalt meirihlutalýðræði. Stundum er sagt að lýðræðið hafi reynst Forn-Grikkjum svo illa að menn hafi ekkert viljað af því vita næstu 2000 árin.
Hinir merku „feður“ stjórnarskrár Bandaríkjanna höfðu svipaðar áhyggjur af lýðræðinu og Aristóteles. Þeir óttuðust líka að lýðræði í sinni einföldustu mynd, það er að segja meirihlutalýðræði, yrði til þess að meirihlutinn sem myndaðist hvert sinni gæti kúgað minnihlutann með íþyngjandi lagasetningu. Af þessum ástæðum höfnuðu þeir beinu lýðræði eins og hafði tíðkast í grísku borgríkjunum en vildu koma á „fulltrúalýðveldi“, samfélagi þar sem myndugir borgarar kysu sér þingfulltrúa til að setja samfélaginu hófsamar en skýrar reglur og forseta til að framfylgja þeim..
Orðið lýðræði kemur hvorki fyrir í bandarísku sjálfstæðisfirlýsingunni né stjórnarskránni. Engu að síður eru þess plögg talin grundvallarrit lýðræðisins. Þar er í fyrsta sinn kveðið á um óafturkræfan rétt allra manna til lífs, frelsis og til að leita hamingjunnar. Þessi réttur er álitinn vera óháður mannsetningum, samfélaginu og ríkisvaldinu, sama hvað það nefnist. Í svokallaðri Réttindaskrá, sem samþykkt var sem viðauki við stjórnarskránna 1791, er svo ákvæði sem ætlað er bæta réttindi almennings með því að takmarka vald ríkisins. Í fyrstu grein er kveðið á um að þingið megi ekki setja lög sem hindra túfrelsi, málfrelsi og prentfrelsi og lög sem hindra friðsamleg mótmæli.
Áherslan á óafturkræfan rétt allra manna er sambærileg við hugmyndina um að uppspretta valdsins í þjóðfélaginu sé hjá fólkinu. Mannréttindahugsunin og lýðræðið tvinnast saman í stjórnarskrám lýðræðisríkjanna. Hún kemur einkar skýrt fram í þýsku stjórnarskánni frá 1949. Þar sem segir í fyrstu grein að helgi mannsins sé ósnertanleg. Þess má þó geta að við setningu lýðveldisstjórnarskrárinnar frá 1944 fór engin efnisleg umræða fram um mannréttindi. Öll áhersla var lögð á það að Ísland væri að breytast úr konungsríki í lýðveldi með þingbundinni stjórn og þjóðkjörnum forseta. Það var ekki fyrr en 1995 að sér stökum mannréttinda kafla var skeytt við stjórnarskránna.
Í tillögum að nýrri stjórnsskrá íslenska lýðveldisins, sem stjórnmálaráð lagði fram haustið 2011, Í er mannréttindakaflinn hafður fremstur og hefst á grein um að öllum skuli gefast kostur að lifa með reisn og að margbreytileiki mannlífsins skuli virtur. Þar er kynnt til sögunnar ítarleg réttindaskrá sem snýst ekki bara um takmörkun ríkisvaldins, heldur líka um skyldur þess til að tryggja þegnunum ákveðin lífsgæði. Þar er meðal annars kveðið á um rétt barna, upplýsingafrelsi, frelsi menningar og mennta og heilbrigðisþjónustu.
Dagskrá hins pólitíska sviðs
Áherslan á mannréttindi og ítarlegar réttindaskrár sýna meðal annars að hið pólitíska svið hefur víkkað mikið frá því sem áður var. Það er raunar eitt einkenni lýðræðisumbóta. Hið pólitíska svið er svið þeirra sem hafa atkvæðis og tillögurétt í samfélaginu. Það er á hinu pólitíska sviði sem ákveðin mál eru sett á dagkrá sem samfélagsmál.
Hið pólitíska svið var lengi vel einokað af karlmönnum sem áttu eignir og voru orðnir 25 ára. Konur, þrælar og útlendingar höfðu ekki atkvæðisrétt í sjálfri vöggu lýðræðisins, borgríkinu Aþenu. Svipað var upp á teningunum í Bandaríkjunum eftir sjálfstæðisyfirlýsinguna 1776 og samningu stjórnarskrárinnar 1789. Konur hlutu ekki kosningarétt í öllum ríkjum Bandaríkjanna fyrr en 1920 og blökkumenn ekki fyrr en 1964.
Íslenskir karlmenn fengu kosningarétt 1843 ekki þó vinnumenn og fátækir bændu. Íslenskar konur fengu ekki rétt til að kjósa til Alþingis fyrr en 1915. Kosningaldurinn var lækkaður í 21 ár 1934 og þá var líka aflögð sú regla að þeir sem skulduðu sveitarsjóði mættu ekki kjósa. Kosningaaldurinn var svo lækkaður í 20 ár 1968 og 18 ár 1984.
Þegar hópar sem áður voru útilokaðir vegna þjóðfélagsstöðu, kyns, kynþáttar eða aldurs verða virkir á hinu pólitíska sviði, breytist áherslan í pólitíkinni. Verkalýðsbaráttan á 19. og 20. öld hafði meðal annar þau áhrif að ákvæði um félagsleg réttindi, almannatryggingar og bætur fyrir atvinnuleysi og örorku rötuðu inn í lagabálka og stjórnarskrár. Jafnréttisbarátta kvenna varð meðal annars til þess að réttindi og umönnun barna, heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun og launamisrétti kynjanna voru tekin á dagskrá á hinu pólitíska sviði. Áður voru þetta talin mestanpart einkamál .
Einn þáttur í lýðræðisumbótum er að lýðræðið sjálft verður mikilvægt málefni hins pólitíska sviðs. Áðurnefnd stefnuræða Willy Brandts er til marks um það. Sama má segja um baráttumál kvennalistans á sinni tíð og pólitísk baráttúmál Vilmundar Gylfasonar. Pólitíkin hafði þá lengi snúist um atvinnusköpun en fór nú að snúast um jafnrétti og lýðræðisumbætur.
Í dag eru lýðræðisumbæturnar nær allstaðar á dagskrá. Íbúalýðræði, þáttökulýðræði, rökræðulýðræði, þjóðfundir, hverfaráð. Útfærslurnar eru margvíslegar. Hugmyndin eða krafan um meiri valddreifingu og um leið valdeflingu borgaranna, gagnsæja stjórnsýslu og meiri ábyrgð stjórnmálanna er rauður þráður í þessari lýðræðisvæðingu samfélaganna. Það er líka mikilvægt að hún fer fram fyrir opnum tjöldum og að gagnvikrir samfélagsmiðlar eru notaðir á mjög skilvirkan hátt. Vefgáttin Betri Borg er gott dæmi um það. Þar geta borgarbúar komið með hugmyndir um hvernig má bæta borgina og rökrætt þær. Þær hugmyndir sem hljóta flest atkvæði og þykja best rökstuddar verða tekanr á dagskrá í ráðum borgarinnar.
Annað og ekki síður áhugavert dæmi var þjóðfundur sem haldinn var haustið 2010 til að undirbúa endurskoðun stjórnarskrárinnar , kosning þeirra sem sátu í stjórnlagaráðinu, beinar útsendingar frá fundum og möguleiki borgara til að sitja þessa fundi sem gestir og til að senda inn rökstuddar tillögur og ábendingar. Það er varla hægt að tryggja betur að þjóðin taki þátt í endurskoðun stjórnarskárinnar.
En þessi leið ekki óumdeild. Því hefur verið haldið fram með nokkrum þunga að það sé aðeins á valdi færustu sérfræðinga að breyta stjórnarskrá, hvað þá að semja nýja.
Auðræði í kunningjasamfélagi
Íbúar í lýðræðisríkjum búa í dag við allskyns lýðræðiskerfi. Til er forsetalýðræði og þingræðislýðræði; lýðræði ríkjasambanda og lýðræði eins ríks, lýðræði sem beita oft þjóðaratkvæðagreiðslum, lýðræði þar sem samband við utanaðkomandi stofnanir skiptir miklu máli (til að mynda Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn), lýðræði þar sem hlutfallskosningar fara fram, lýðræði þar sem meirihlutakosningar fara fram. Allar þessar útfærslur virðast ganga ágætlega svo lengi sem grunnregla lýðræðisins um frelsi og jafnræði er í heiðri höfð.
Eins og áður sagði virðist efnhagsleg velgengni fylgja lýðræðinu og því ætti fátt að standa í vegi þess, ekki síst á tímum þegar því stafar engin ógn lengur af fasisma og kommúnisma. En ógnirnar leynast víða og ýmsir veikleikar innra með sjálfum lýðræðiskerfunum geta reynst afdrifaríkir.
Aldamótaárið 2000 kom út bókin Framtíð lýðræðis á tímum hnattvæðingar hjá Atviksbókaröðinni. Þetta safn greina eftir nokkra af fremstu stjórnmála- og félagsfræðingum heimsins. Þar kemur meðal annars fram hvernig samfélögin verða sífellt hnattvæddari, þar með talið líf einstaklinganna, félagasamtök og stofnanir og auðvitað viðskiptalífið sem er leiðandi í hnattvæðingunni.
Stjórnmálin eru hins vegar enn bundin við afmörkuð svæði sveitarfélaga og þjóðríkja. Af þessu skapast ójafnvægi svæðisbundinna stjórnmála og hnattvæddra afla. Þetta ójafnvægi hefur leitt til þess að hefðbundið fulltrúalýðræði má sín æ minna gagnvart krafti og kröfum fjármála- og viðskiptlífsins. Það verður meðal annars til þess að stjórmálamenn telja sér trú um að ekki séu til aðrir valkostir en að láta hagsmuni fjármagnseigenda og fyrirtækja ráða ferðinni. Annars fari þessi öfl eitthvað annað með fjármagn og störf. Breski stjórnmálafræðingurinn David Held skrifar um þá tilhneiginingu að markaðskenningin verði lýðræðiskenningunni yfirstekari.
Ekki þarf að lesa lengi í Rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir bankahrunsins á Íslandi, til að gera sé grein fyrir að nákvæmlega það sem varað er við í þessu greinasafni gerðist hér á Íslandi. Verkaskiptin ríkisvalds og viðskiptalífs varð smám saman mjög óskýr. Þekktasta dæmið er þegar forsætisráðherrann lét leggja Þjóðhagsstofnun niður árið 2002 með þeir orðum að hún væri óþörf, aðrir aðilar gætu sinnt hlutverki hennar til að mynda bankarnir og fjármálafyrirtæki. Bönkunum var sem sagt treyst til að hafa eftirlit með sjálfum sér. Það leiddi síðan til þess að fjölmiðlar leitaðu sífellt oftar til forstöðumanna greiningardeilda bankanna til að meta stöðugleika efnhags og fjármálalífs.
Þegar á reyndi var hvorki stjórnmálastéttin né embætismannstéttin í stakk búin til að ráða við þá miklu ógn við almannahag sem gengdarlaus skuldasöfnun og svikamilla banka og fjármálafyrirtækja sköpuðu. Hér á landi ríkti samkvæmt skýrsluhöfundum „pólitísk lömunarveiki“ gangvart fjármálavaldinu i aðdraganda hrunsins.
Segja má að hér hafi sú meðvitaða ákvörðun verið tekin að láta peningaöflin ráð mjög miklu. Hér skapaðist í raun plútókratie, eða auðræði sem bæði Platón og Aristóteles vörðu við fyrir 2400 árum. Þeir voru sér meðvitaðir um að það er ekki farsælt að leyfa hugsun og markmiðum peningaflanna að vera ráðandi þegar ákvarðanir eru teknar um almannahagsmuni.
Auðræðið grefur undan jafnræði í samfélaginu, grundvelli lýðræðisins. Það er ólýðræðislegt að þeir sem eiga mikla peninga geti haft meiri pólitísk áhrif en aðrir borgarar. Sú vitund leiddi meðal annars smátt og smátt til þess að nú er talið eðlilegt að opinbert eftirlit sé haft með fjármálum stjórnmálaflokka og því hvernig stjórnmálamenn fjármagna kosningabaráttu sína í prófkjörum. Jóhanna Sigurðardóttir lagði fram frumvarp um slíkt eftirlit í 10 ár en það náði ekki fram að ganga fyrr eftir hrun.
Í rannsóknarskýrslunni er einnig að finna ítarlega úttekt á veikleika og formleysi í starfsháttum ríkisstjórnar og stjórnsýslu, skorti á skýrum verkreglum og því hvernig pólitískar ráðningar háttsettra embættismanna höfðu skaðleg áhrif. Þar við bættist að kunningjatengsl eru mikil á Íslandi. Um þau segir í skýrslunni: „ Kunningjasamfélaginu er oft lýst á þann veg að í stað þess að fara eftir viðurkenndum leikreglum sé vinum og kunningjum hyglað, t.d. í stöðuveitingum, og þar standi menn óeðlilega þétt saman“.