Sæll Ragnar Þór
Þú spyrð frambjóðendur um viðhorf þeirra til starfsskilyrða og starfskjara grunnskólakennara. Ég er, í fáum orðum sagt, fylgjandi því að grunnskólakennarar njóti sömu kjara og starfsskilyrða og háskólamenntaðir borgarstarfsmenn með sambærilega menntun og ábyrgð.
Þú nefnir í þessu samhengi tilraunir síðustu ára til að einfalda kjarasamninga grunnskólakennara. Mér finnst að aukinn sveigjanleiki og aukin hagræðing í rekstri og stjórnun skólanna eigi að leiða til þess að laun kennara hækki og að skólastarfið verði öflugra og skilvirkara.
Sennilega er þetta svolítið fyrirsjáanlegt svar. Korteri fyrir prófkjör vilja frambjóðendur hafa gott veður allsstaðar. Það er sem sagt innbyggður veikleiki í svörunum við svona spurningum. Þakka þér samt fyrir að spyrja. Það brýnir okkur frambjóðendur. Ég veit að þú munt halda okkur við efnið eftir prófkjör.
Kennarastarfið er auðvitað eitt mikilvægasta starf samfélagsins. Ég veit það af eigin reynslu og reynslu barnanna minna. Góður kennari vekur ekki bara hjá manni áhuga á tiltekinni námsgrein. Hann/hún blæs í sjálfan lífsneistann í sálinni. Tilveran er mögnuð, full af furðum og fallegum hlutum og alls kyns mikilvægum álitamálum og sjálfur er maður hluti af þessu öllu saman. Það er dásamlegt. Maður býr að þeirri tilfinningu alla ævi.
Það rifjast upp fyrir mér að fyrir næstum 10 árum fjallaði ég talsvert um skólamál í Speglinum á Ríkisútvarpinu. Tilefnið var frekar slakur árangur íslenskra grunnskólanema í PISA prófum. Ég ætla ekki út í þá viðkvæmu sálma hér. En mér skilst að nú eigi að vinna mjög einarðlega að því auka læsi hjá börnum og gera það sem hægt er til að minnka brottfall úr framhaldsskólum.
En það er ein setning sem fer ekki úr höfðinu á mér frá því ég fjallaði um þessi mál í Speglinum. Ég las viðtal við Andreas Schleicher, þýskan skólafrömuð sem starfar í menntaráði OECD og hefur verið kallaður „Faðir Pisa“. Hann sagði í þessu viðtali að sín reynsla væri sú að það skipti engu hvað skólakerfið héti eða hvernig skipuritinu væri háttað. En það skipti öllu máli að í skólanum ríkti „andrúmsloft andlegs metnaðar“.
Auðvitað eru það fyrst og fremst góðir kennarar sem skapa slíkt andrúmsloft.