Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar skrifar um skipulagsmál í Reykjavík í sögulegu samhengi.
Í hvernig borg viljum við búa? Um það eru auðvitað skiptar skoðanir en sennilega vilja allir búa í borg þar sem er gott að lifa og starfa. Sagan sýnir að það gerist ekki af sjálfu sér, heldur þarf að koma til skipulagsstefna sem tryggir að almannahagsmunir ráði ferðinni en ekki sérhagsmunir. Stefnan þarf að fela í sér ákveðna framtíðarsýn og áætlun um hvernig henni verði náð. Þessi framtíðaráætlun er kölluð aðalskipulag.
Í aðalskipulagi er sett fram stefna um þróun byggðarinnar til langrar framtíðar. Aðalskipulagið kveður á um hvar íbúðahverfin og atvinnusvæðin eiga að vera, hvar nýjar götur og stígar eiga að liggja og hvaða svæði verða tekin frá til útivistar. Mikilvægt er að það sé unnið fagmannlega og eftir lýðræðislegum leiðum. Að það sé rætt opinberlega þegar það er á tillögustigi og að lokum greidd atkvæði um það eftir umræðu í borgarstjórn. Á sínum náðist þverpólitísk sátt í borgarstjórn um Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 – 2030. Skipulagið var sannkallaður sáttmáli sem er merkilegt í ljósi þess hve róttækt það er.
Nú er í kynningu meðal almennings endurskoðun á stefnu aðalskipulagsins um íbúðabyggð og blandaða byggð og tillaga um að framlengja skipulagið til 2040. Þar er gengið út frá meginstefnu aðalskipulagsins 2030 um þéttingu byggðar, skipulag vistvænna hverfa, almenningssamgöngur, hjólreiðar, gæði byggðarinnar og götuna sem borgarrými. Reiknað er með að til ársins 2040 verði byggðar um rúmlega 1000 íbúðir á ári, alls um 20000 íbúðir. Fjórðungur þeirra eða um 5000 íbúðir verði byggðar af húsnæðisfélögum sem eru ekki hagnaðardrifin.
Í aðalskipulaginu 2040 er gert er ráð fyrir að Borgarlínan komist til fullra nota og að hún verði hryggjarstykki í uppbyggingunni. Um 80% nýrra íbúða verða í námunda við Borgarlínuna. Miklabraut fer að hluta í stokk og Sæbraut sömuleiðis. Hraðbrautirnar hætta að skera hverfin í sundur og byggðin tengist. Fólk getur rölt yfir í næsta hverfi án þess að vera í lífshættu. Götur og hús verða ein heild.
Hugmynd um gott líf
Skipulagsstefna hvers tíma felur í sér ákveðna hugmynd um gott líf. Skipulagsuppdráttur af Reykjavík frá 1927 byggði á evrópskum hugmyndum hvernig mætti byggja upp þétta en lága byggð með góðu húsnæði og fallegum smáborgarbrag. Öll byggðin átti að rúmast innan Hringbrautar. Rífa átti nær alla gömlu timburhúsabyggðina. Í staðinn skyldi rísa samfelld randbyggð við götureitina með húsagörðum í miðjunni. Þar sem Norðurmýrin er núna átti að koma járnbrautarlestarstöð.
Skipulagsuppdrátturinn hlaut aldrei formlega staðfestingu sem aðalskipulag enda var það orð óþekkt. Fljótlega kom í ljós að ekki var stætt á því að halda byggðinni til framtíðar innan Hringbrautar auk þess sem fyrirhugað stórfellt niðurrif húsa og eignaupptaka var gagnrýnd harðlega. Skipulagsuppdrátturinn hafði samt talsverð áhrif. Bent hefur verið á að göturnar í kringum Grund við Hringbraut eru skilgetið afkvæmi uppdráttarins, sama má segja um sunnanvert Skólavörðuholtið.
Það var ekki fyrr en 1966 að fyrsta formlega aðalskipulagið var staðfest – og gilti til 1983. Skipulagið var mjög vandað enda átti það eftir að hafa veruleg áhrif á skipulag byggðarinnar næstu 40 árin. Það gerði ráð fyrir lágri en býsna dreifðri byggð. Ofuráhersla var lögð á tvennt. Annars vegar skiptingu borgarinnar í hrein íbúðarsvæði og skýrt afmörkuð verslunar- þjónustu- og atvinnusvæði. Þessi skipting borgarinnar í aðskilin svæði, sem lágu nokkuð dreift, lengdi ferðirnar sem fólk þurfti að fara dagsdaglega. Þá kom að hinu meginatriði skipulagsins, gríðarlega umfangsmiklu hraðbrautarkerfi fyrir bíla. Hraðbrautarkerfið átti að tryggja að sem minnstur tími færi í ferðalög milli dreifðra borgarhluta en það ýtti um leið undir ennþá meiri dreifingu borgarinnar og jók vegalengdirnar. Útkoman varð sem sagt vítahringur sem var virkur í borginni næstu áratugina.
Þetta skipulag gerði líka ráð fyrir verulegu niðurrifi gamalla húsa, ekki síst til rýma fyrir nýjum hraðbrautum. Meðal annars átti að leggja hraðbraut í gegnum Grjótaþorpið og aðra í gegnum Kvosina og eftir Grettisgötu. Nokkur myndarleg timburhús, svo sem Uppsalir við horn Aðalstrætis og Túngötu og Amtmannshúsið, voru rifin til skapa pláss fyrir miðbæjarhraðbrautir sem aldrei voru lagðar
Skömmu eftir að skipulagið var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum í borgarstjórn kom fram hvöss gagnrýni hjá nokkrum ungum arkitektum. Einna lengst gekk Björn Ólafs arkitekt í París sem hélt því fram að skipulagið væri úrelt því það byggði á úreltum hugmyndum um nauðsyn þess að aðgreina hverfin í hrein íbúðarsvæði, atvinnusvæði og þjónustusvæði. Aðgreiningin væri viðbrögð við skítugum iðnaðarborgum 19. aldar. Við þyrftum ekki lengur á henni að halda enda lifðum við í “post-industrial” samfélagi.
Björn benti líka á að maðurinn væri ekki bara neytandi og vinnuafl. Hann væri fyrst og fremst félagsvera og skipulag borganna þyrfti um fram allt að taka mið af því. Borgir er vettvangur fyrir samskipti fólks, skrifaði Björn. Það er ástæðan fyrir því að þær skuli yfirleitt vera til. Borgarskipulag er aðferð til að gera samskiptin auðveldari og skemmtilegri.
Hvað hefur breyst?
Hvað hefur breyst. Jú, við viljum vernda gömlu timburhúsin en ekki rífa þau. Við gerum okkur grein fyrir að hin stranga svæðisskipting borgarinnar og ofuráhersla á bílaumferð og allt sem henni fylgir, þar með talin gríðarlega stór landflæmi sem fara undir bílastæði, felur í sér mikla ókosti. Allt að 48% af þéttbýli borgarinnar, að undanskildum stórum útivistarsvæðum, fer undir umferðarmannvirki og helgunarsvæði þeirra Við gerum okkur betri grein fyrir samhenginu á milli góðs borgarskipulags og lýðheilsu. Við vitum fyrir víst að gott byggingarland er takmörkuð auðlind og að mikilvægt er að skilgreina og virða vaxtamörk borgarinnar svo að ný byggð og nýjar hraðbrautir leggi ekki undir sig alla náttúruna í kringum borgina og vegalengdir halda áfram að aukast. Við viljum losa okkur úr vítahringnum.
Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 til 2030 markaði þáttaskil. Það skilgreindi ákveðin vaxtamörk og gerði ráð fyrir að 90% nýrrar byggðar skyldi rísa innan þeirra, á vannýttum iðnaðarsvæðum og bílastæðum. Það gerði grein fyrir mikilvægi vistvænna samgangna og skilgreindi sjálfar göturnar sem borgarrými en í því fólst sá boðskapur að göturnar væru mikilvægt og fjölbreytilegt almannarými í borgarlandslaginu.
Auðvitað er Aðalskipulagið 2010 til 2030 ekki hafið yfir gagnrýni. Það hefur verið gagnrýnt fyrir að þrengja að bílaumferð og fyrir of mikla þéttingu. Því er til að svara að nauðsynlegt er að stemma stigu við sífellt vaxandi bílaumferð og að þétting byggðar er bæði hagkvæm og umhverfisvæn. Meginþættir aðalskipulagsins virðast ætla að halda gildi sínu. Krafan um lífvænlegt borgarumhverfi, góða landnýtingu, skilvirkar og vistvænar samgöngur og vistvæna, þétta byggð verða sennilega ofarlega á baugi næstu áratugina.
Tillagan að aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040, sem er nú auglýst, heldur í þessi meginatriði eins og áður sagði. Skipulagið verður leiðarljós í uppbyggingu borgarinnar næstu 20 árin. Þar er gert ráð fyrir að 100% nýrrar byggðar rísi innan vaxtamarka borgarinnar. Stærsta uppbyggingarsvæðið verður Ártúnshöfðinn og Bryggjuhverfi vestur. Þar mun rísa 20.000 manna byggð á svæði sem er fimm sinnum minna en Grafarvogshverfið. Ætlunin er að það verði eitt grænasta hverfi borgarinnar með hágæða almenningssamgöngum.
Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.
Greining birtist í flokknum Aðsendar greinar 2. mars 2021
Mynd með grein: Einar H Reynis.