Hann var í ljósbrúnum flauelsjakkafötum og rúllukragabol, minnir mig, fíngerður, með stór gleraugu og þvengmjór. Þetta var í fermingarveislu hjá frændum okkar vorið 1984. Þar sá ég hann í fyrsta sinn. Við höfðum oft heyrt minnst á Brynjólf bróður okkar, hálfbróður nánar tiltekið. Það er skrýtið orð. Hann var yngsta barn pabba af fyrra hjónabandi, fæddur í mars 1951 þegar pabbi og fyrri kona hans voru skilin. Þau gáfu hann barnlausum hjónum sem bjuggu á Fornhaganum og voru ágætlega efnuð.

Þegar ég segi við, á ég við okkur Óla bróður sem er rúmlega ári yngri en ég. Við áttum líka stóran bróður, hann Yngva sem var miklu eldri en við. Hann fæddist 1947 og fluttist til Kaupmannahafnar árið 1970 og bjó þar til ótímabærs dauðadags. Við þrír vorum albræður. Það er líka skrýtið orð. Okkur Óla þótti afar vænt um Yngva og litum upp til hans af því okkur þótti hann svo mikill heimsmaður. Brynjólf þekktum við ekki neitt og höfðum engan sérstakan áhuga á að kynnast honum, einhverra hluta vegna.

Áður en við fórum í fermingarveisluna var okkur sagt að Brynjólfur væri alvarlega veikur og máttfarinn en ekki væri almennilega vitað hvað gengi að honum. Sennilega ætti hann ekki langt eftir. Hann var 33 ára. Það fylgdi sögunni að hann langaði að kynnast okkur, litlu bræðrum sínum. Við náðum ekki að spjalla mikið saman í veislunni en hann bauð okkur í heimsókn til sín eitthvert kvöldið snemmsumars á Fornhagann. Við þáðum auðvitað boðið og þessi kvöldstund hefur tekið sér bólfestu í minninu.

Þetta var rúmgóð og björt þakíbúð á hæðinni fyrir ofan íbúð fósturforeldra Brynjólfs. Við settumst í þægilegan sófa og Brynjólfur bauð svolítið nervus upp á kaffi eða te. Hann átti stórt hljómplötusafn. Hann var hjúkrunarfræðingur og hafði flust til Kaupmannahafnar 1978. Þar vann hann á Bisbebjerg hospitalet en veiktist og flutti aftur til Reykjavíkur 1982 og fór að vinna á geðdeild Borgarspítalans. Við röbbuðum saman langt fram á kvöld. Það var gott. Einhverntíma kvöldsins fór hann fram í eldhús að hella upp á meira kaffi. Í einhverju fikti dró ég fram klámblað, greinilega ætlað hommum, sem lá ásamt tónlistartímaritum á glerplötu undir sófaborðinu og fletti því snögglega. Brynjólfur sá þetta og sagði „það er eins gott að hún fósturmóðir mín sér þetta ekki. Hún myndi ekki einu sinni snerta á svona löguðu með gulu gúmmihönskunum sínum.“

Í minningunni lifir tilfinning fyrir einsemd og harmi en líka gleði. Af hverju í ósköpunum höfðum við aldrei haft áhuga á að kynnast honum. Við fréttum síðar um sumarið að þessi kvöldstund okkar hefði glatt Brynjólf mikið. Hann lést 17. nóvember sama ár. Opinber dánar­orsök var eitlakrabbamein. Við kistulagninguna var kistan lokuð og innsigluð að fyrirmælum lækna. Nokkrum árum síðar fréttum við að Brynjólfur hefði líklega verið fyrsti Íslendingurinn til að látast úr alnæmi. Annan júlí 1985 tilkynnti Borgarbókasafnið að fósturforeldrar Brynjólfs hefðu gefið safninu gríðar­mikið hljómplötusafn með óperutónlist, nótnasafn og tónlistartímarit í minningu hans.

Svo var það hann Yngvi. Ætli ég hafi ekki verið tólf ára þegar faðir minn dróg mig afsíðis af því hann þurfti að tala aðeins við mig. Hann taldi að Óli væri of ungur til heyra fréttirnar sem hann var með. Þannig væri mál með vexti að Yngva hefði liðið illa og nú væri komið í ljós að hann væri kynvilltur. Það væri alvarlegt mál. Áður fyrr hefði kynvilla verið glæpur og kynvillingar dæmdir til fangelsisvistar. Sem betur fer hefðu orðið miklar framfarir á þessu sviði, nú væri vitað að kynvilla væri sjúkdómur og verið væri að þróa aðferðir til lækningar í útlöndum. Það var eins og pabbi vorkenndi sér að eiga son sem svona var komið fyrir. Mér fannst það asnalegt og þótti enn vænna um Yngva eftir þetta samtal sem ég mun seint gleyma.

Yngvi lærði félagsráðgjöf í Kaupmannahöfn og starfaði lengst af á Bisbebjerg. Já, sama spítala og Brynjólfur. Þeir umgengust sama og ekkert. Yngvi hafði ekki áhuga á því. Ég veit ekki af hverju.

Við Óli heimsóttum Yngva oft til Kaupmannahafnar. Það voru dýrðar­tímar. Yngvi átti mikið af lífsglöðum vinum, var frábær kokkur, lagði mikið upp úr því að bera fallega á borð og var mesti leikhúsmaður sem ég hef kynnst. Hann dýrkaði danskar leikkonur á borð við Ghitu Nörby. Hann var á vinstri kantinum í pólitíkinni en samt mikill royalisti. Honum fannst reyndar Hinrik prins frekar heimskur og alls ekki samboðinn Margréti Þórhildi.

Yngvi átti einhverja kærasta, eins og gengur, en þegar hann var sirka 36 ára eignaðist hann vin sem hét Ib. Þeir voru ólíkir en drógust samt hvor að öðrum. Ég held að Ib hafi hrifist af því hversu vinmargur Yngvi var og hvað hann var hrifnæmur. Yngvi hreifst að því hvað Ib var nákvæmur og agaður, sem sagt danskur. Sambandið entist í tæplega 10 ár en þá batt Ib enda á það og var fljótlega kominn með nýjan kærasta. Einhvern sænskan vitleysing sem var í sértrúarsöfnuði, sagði Yngvi. Verra gat það ekki verið. Yngvi tók skilnaðinn mjög nærri sér, gerðist kvíðinn, örvæningarfullur og aðeins of drykkfelldur og skeytingarlaus um eigið líf og heilsu. Árið 1997 eða 98 greindist hann með HIV. Nákvæmlega það hafði hann óttast meira en allt í lífinu.

Hann óttaðist að vinnufélagar hans fréttu það og hann óttaðist að það fréttist til Íslands. Hann óttaðist að hann myndi einangrast og aldrei eignast kærasta aftur. Hann óttaðist skömmina. Hann óttaðist félagslega brennimerkingu. Sem betur fer þoldi hann ágætlega lyfin sem hann þurfti að taka, þegar að því kom, en þau hjálpuðu honum ekki andlega. Hann var fastur í vítahring. Ástandið varð verra og verra. Drykkjuskapurinn jókst og hann tók sífellt stærri skammta af svefnlyfjum til að ná að sofa eitthvað. Hann var mjög tregur að leita sér aðstoðar en sjálfur hafði hann unnið við það alla ævi að aðstoða aðra. Hann fannst látinn á heimili sínu við Dueveij í Fredriksberg 27. október 2006. Dánarmeinið var blóðtappi sem orsakaðist líklega af blæðandi magasári.

Það kom í minn hlut að ganga frá dánarbúinu ásamt Sigga vini hans. Ég var heila viku í íbúðinni hans að sortera og raða ofan í kassa og spilaði uppáhaldslagið hans „Send in the Clowns“ með Söruh Vaughan kvölds og morgna. Þegar Yngvi kom heim á kvöldin og var í stuði eftir að hafa farið út á lífið setti hann þetta lag á fóninn og skrúfaði græjurnar í botn.

Hjálmar Sveinsson er borgarfulltrúi í Reykjavík


Birtist fyrst í Rauða Borðanum 1. des. 2018