Það eru spennandi tímar í Reykjavík. Borgin er að breytast úr frekar strjálli byggð, með miklum vegalengdum, í þétta og mannvæna borg þar sem stutt er í alla þjónustu. Þar sem áður voru endalaus bílaplön, úr sér gengnar atvinnulóðir og veghelgunarsvæði rísa núna þúsundir íbúða, falleg torg og nytsamleg útisvæði. Þetta er nýja Reykjavík. Ný hámarkshraðaáætlun hefur verið samþykkt og það hefur átt sér stað sannkölluð bylting í gerð hjólastíga. Undirbúningur Borgarlínunnar er á fullri ferð. Stefnan er að gera Reykjavík að borg þar sem vistvænar samgöngur eru á heimsmælikvarða.

Klárum Borgarlínuna

Heimurinn er á krossgötum. Loftslagsvandinn gefur engin grið. Sú vistvæna leið sem við fetum í borginni, það er eina vitræna leiðin. Við þurfum að taka enn stærri skref næstu árin. Borgarlínan er liður í því. Hraðvagnakerfi Borgarlínunnar verður mjög afkastamikið þegar kemur að því að flytja mikinn fjölda fólks á skömmum tíma í og úr vinnu og skóla. Mengunin snarminnkar. Klárum Borgarlínuna og sköpum fleiri góð íbúðarhverfi á illa nýttum svæðum.

List og menning í Reykjavík 2030

Ný og framsækin menningarstefna var samþykkt í borgarstjórn um daginn, „List og menning í Reykjavík 2030“. Við ætlum að gera Reykjavík að frábærri borg til að skapa listir og njóta þeirra. Fyrir dyrum standa metnaðarfullar áætlanir um að breyta Hafnarhúsinu í hús myndlistar þar sem safn Nínu Tryggvadóttur verður meðal annars til sýnis. Einnig stendur til að breyta höfuðstöðvum Borgarbókasafnsins í Grófinni þannig að það verði meiri menningarmiðstöð og samkomuhús, líkt og hefur verið að gerast í framsæknum bókasöfnum í hinum norrænu ríkjunum. Við viljum umfram allt tryggja að nýja Reykjavík sé skemmtileg og falleg borg, þar sem lögð er áhersla á velferð, á jöfnuð og á góða þjónustu við alla borgarbúa, frá bernsku til efri ára.

www.frettabladid.is/skodun/afram-nyja-reykjavik