Stefnumál

Ég býð mig fram í 3. sæti í flokksvali Samfylkingarinnar sem fram fer dagana 7. og 8. febrúar. Ég er jafnaðarmaður og vil beita mér fyrir réttlátara samfélagi í fallegri og vistvænni borg. Eitt stærsta verkefni okkar næstu misserin er að sjá til þess að hér verði til fjölbreyttir búsetukostir sem henta öllum félagshópum. Það gerist ekki af sjálfu sér. Við þurfum félagslega húsnæðisstefnu og pólitískt hugrekki til að koma henni í verk.

Í borginni hef ég einkum lagt áherslu á umhverfismál og skipulagsmál.

Ég er fyrsti varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, formaður stjórnar Faxaflóahafna og varaformaður umhverfis og skipulagsráðs. Sumarið 2010 var ég kjörinn í umbótanefnd Samfylkingarinnar.

Ég lít svo á að ein mikilvægasta lífskjarabarátta okkar tíma snúist um borgarumhverfið; að það sé hagkvæmt fyrir íbúana, heilsusamlegt, öruggt, skjólsælt, aðlaðandi og fjölbreytt. Þetta er einmitt rauði þráðurinn í nýju aðalskipulagi fyrir Reykjavík sem ég hef tekið þátt í að móta undanfarin ár. Á vettvangi Faxaflóahafna gekkst ég fyrir því að fyrirtækið mótaði sér metnaðarfulla umhverfisstefnu. Ég beitti mér líka fyrir því að nú er árlega haldið svokallað notendaþing fyrir hina fjölmörgu og ólíku notendur hafnarsvæðanna. Það hefur reynst vel. Við gömlu höfnina í Reykjavík hefur myndast einstætt sambýli sjávarútvegs, ferðaþjónustu og menningarstarsemi.

Hjálmar Sveinsson