List og menning eru snar þáttur í lífsgæðum okkar og um leið mikilvægir drifkraftar í þróun samfélagsins. Undanfarna mánuði hefur verið unnið að nýrri menningarstefnu fyrir Reykjavík sem heitir „List og menning í Reykjavík 2030“.
Það er auðvelt að slá um sig með orðinu „menningarborg“. En til að borgin standi undir þeirri nafnbót þarf margt að koma til. Það er grundvallaratriði að „allir íbúar hafi jöfn tækifæri til að njóta lista, menningar og menningararfs bæði sem þátttakendur og neytendur“. Enginn má vera útilokaður. Það er rauður þráður í stefnunni.
Annað meginstef felst í því að í Reykjavík séu framúrskarandi aðstæður til listsköpunar. Það á að vera eftirsóknarvert fyrir listamenn að búa í Reykjavík. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg skapi aðstæður þar sem listsköpun nýtur sín. Styrkir borgarinnar, sem eru umtalsverðir, eiga að stuðla að eflingu listgreinanna á þeirra eigin forsendum.
Segja má að í stefnunni sé bæði horft út á við og inn á við. Lögð er áhersla á hverfamenningu og sett fram sú framtíðarsýn að öll hverfi borgarinnar verði suðupottur menningar og lista. Um leið er áréttað að Reykjavík eigi að verða heimsþekkt menningarborg.
Af hverju menningarstefna? Jú, hún gefur meðal annars listafólki og þeim sem reka menningarstofnanir kleift að hafa áhrif á það hvaða markmiðum skuli stefnt að næstu árin og til hvaða aðgerða skuli gripið til að ná settu marki. Menningarstefnan byggir á víðtæku samráði við fulltrúa allra listgreina, menningarstofnana og félaga sem borgin styrkir. Stefnan brýnir borgaryfirvöld til að leggja metnað í að skapa sem bestar aðstæður fyrir listsköpun og öflugt menningarstarf. Hún lýsir markmiðum og gerir grein fyrir hvernig þessum markmiðum skuli náð.