„Það hefur alltaf verið á hreinu fyrir hvað ég stend"

Ég gef kost á mér á lista Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor, og óska eftir stuðningi flokksfólks og stuðningsmanna í þriðja sæti í forvali flokksins 12.‒13. febrúar.

Ég hef starfað í borgarpólitíkinni þrjú kjörtímabil, aflað mér mikillar reynslu og náð verulegum árangri. Ég er nú formaður menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs og stjórnarformaður Strætó, en var á síðasta kjörtímabili formaður umhverfis- og skipulagsráðs, og þar áður í skipulagsráði og stjórnarformaður Faxaflóahafna.

Mitt erindi í borgarpólitíkinni hefur alltaf verið skýrt. Verkefnin framundan eru brýn. Borgarlínan og grundvallarumbætur í samgöngumálum, viðnám við loftslagsbreytingum, ný íbúðarhverfi á illa nýttum svæðum í borgarlandinu, og auðvitað þurfum við að tryggja að nýja Reykjavík sé skemmtileg og falleg borg, þar sem lögð er áhersla á velferð, á jöfnuð og á góða þjónustu við alla borgarbúa, frá bernsku til efri ára.

Ég er menntaður í heimspeki og bókmenntum í Reykjavík og Berlín og starfaði lengi við þáttagerð á RÚV. Árið 2017 kom út eftir mig og Hrund Skarphéðinsdóttur umferðarverkfræðing bókin Borgin ‒ heimkynni okkar um borgir, stefnur, skipulag, sögu og mannlíf.

Ég er kvæntur Ósk Vilhjálmsdóttur myndlistarmanni, við eigum þau þrjú börn. Ég er útivistar- og hjólreiðamaður og bý á Baldursgötunni.

Forval Samfylkingarinnar í Reykjavík fer fram 12. og 13. febrúar og er opið flokksmönnum í Reykjavík og stuðningsmönnum sem skrá sig rafrænt hjá miðstöð flokksins (xs.is).

Nýjustu fréttirnar

19.01.2022

Áfram nýja Reykjavík

Það eru spennandi tímar í Reykjavík. Borgin er að breytast úr frekar strjálli byggð, með miklum vegalengdum, í þétta...