Í hvernig borg viljum við búa? Um það eru auðvitað skiptar skoðanir en sennilega vilja allir búa í borg þar sem er gott að lifa og starfa. Sagan sýnir að það gerist ekki af sjálfu sér, heldur þarf að koma til skipulagsstefna sem tryggir að almannahagsmunir ráði ferðinni en ekki sérhagsmunir. Stefnan þarf að fela í sér ákveðna framtíðarsýn og áætlun um hvernig henni verði náð. Þessi framtíðaráætlun er kölluð aðalskipulag.
Í aðalskipulagi er sett fram stefna um þróun byggðarinnar til langrar framtíðar. Aðalskipulagið kveður á um hvar íbúðahverfin og atvinnusvæðin eiga að vera, hvar nýjar götur og stígar eiga að liggja og hvaða svæði verða tekin frá til útivistar. Mikilvægt er að það sé unnið fagmannlega og eftir lýðræðislegum leiðum. Að það sé rætt opinberlega þegar það er á tillögustigi og að lokum greidd atkvæði um það eftir umræðu í borgarstjórn. Á sínum náðist þverpólitísk sátt í borgarstjórn um Aðalskipulag Reykjavíkur 2010 – 2030. Skipulagið var sannkallaður sáttmáli sem er merkilegt í ljósi þess hve róttækt það er.
Nú er í kynningu meðal almennings endurskoðun á stefnu aðalskipulagsins um íbúðabyggð og blandaða byggð og tillaga um að framlengja skipulagið til 2040. Þar er gengið út frá meginstefnu aðalskipulagsins 2030 um þéttingu byggðar, skipulag vistvænna hverfa, almenningssamgöngur, hjólreiðar, gæði byggðarinnar og götuna sem borgarrými. Reiknað er með að til ársins 2040 verði byggðar um rúmlega 1000 íbúðir á ári, alls um 20000 íbúðir. Fjórðungur þeirra eða um 5000 íbúðir verði byggðar af húsnæðisfélögum sem eru ekki hagnaðardrifin.
Í aðalskipulaginu 2040 er gert er ráð fyrir að Borgarlínan komist til fullra nota og að hún verði hryggjarstykki í uppbyggingunni. Um 80% nýrra íbúða verða í námunda við Borgarlínuna. Miklabraut fer að hluta í stokk og Sæbraut sömuleiðis. Hraðbrautirnar hætta að skera hverfin í sundur og byggðin tengist. Fólk getur rölt yfir í næsta hverfi án þess að vera í lífshættu. Götur og hús verða ein heild. Meira