Eiríkur Guðmundsson

Eiríkur GuðmundssonHérna er vinur minn Hjálmar. Ég var svo heppinn að kynnast honum fyrir uþb fimmtán árum, þá var ég rýr eins og venjulega en hann nýkominn frá Berlín og í rauðum skóm. Fullur af einhverju sem skipti máli. Fullur af hugmyndum, og trega og næmni og hæversku og vilja til að segja eitthvað sem skipti máli. Hann lagði eina reglu sem hefur alltaf fylgt mér síðan: Segðu frá þessu eins og það skipti þig einhverju máli. Annars skaltu þegja. Það er góð regla. Gæti farið mörgum fögrum orðum um hann, við unnum saman lengi og hann ól mig upp á svo margan hátt, enda leit ég og lít enn upp til hans. Ég hef lært margt af honum. Innra með honum er óskýrður tregi sem gerir menn að mönnum, sá maður sem ekki býr yfir óskýrðum trega er ekki maður. Venjulegir stjórnmálamenn hafa ekki þetta svið, þeir hafa kosið að gleyma því af því að þeir halda að það sé fallið til vinsælda, þeir eru heldur ekki næmir, og þess vegna eru stjórnmálin að drepast. Þetta er hans sérstaða meðal þeirra sem bjóða sig fram til að vinna fyrir okkur. Hæverskur, greindur í meira lagi, hrifnæmur, viðkvæmur, mjög, þetta finnst mér góð blanda, eiginlega alveg frábær, og með þetta dularfulla svæði innra með sér sem gerir manneskjur heillandi. Við töluðum oft og lengi á stútfullum launum frá hinu opinbera um drum’and’bass, Heidegger, Kleist, Kant, Walser, Cave, Kraftwerk, Neu, og Bowie, alveg þar til við vorum orðnir of seinir i útsendingu, allt of seinir. En það kom ekki að sök, Hjálmar var eigi að síður sá maður sem endurreisti talmál í íslensku útvarpi, og þá meina ég talmál sem skiptir einhverju máli. Hann hitti Cave með bindi á götu í Berlín. Hann drakk með strákum í kjólum sem drukku með Bowie. Af honum hef ég lært svo margt. Ég veit ekkert um hafnarstjórn en ég vil búa í góðri borg. Sennilega mun þessi pistill verða mínum góða vini til vansa. En ég kýs hann samt.