Sá sem ekkert vissi um þróun þjóðfélagsins en stæði við horn Austurstrætis og Lækjargötu í Reykjavík í ársbyrjun 2009 og virti fyrir sér malargrunn sem þar er og leifar af gömlu timburverki, horfði svo yfir Lækjartorg í átt að hálfbyggðu stórhýsi út við sjóinn, sem minnti helst á svarta klettaeyju vegna umfangs síns, mannleysis, ljósleysis og fjarlægðar frá byggðinni, myndi tæplega draga þá ályktun að þetta auðnarlega umhverfi í miðri höfuðborg væri afrakstur eins mesta velmegunarskeiðs sögunnar. Honum gæti dottið í hug að efnahagskreppa hlyti að hafa ríkt í þessu landi í langan tíma og nú færi henni vonandi að ljúka. Ef hann gengi upp Hverfisgötu framhjá Þjóðmenningarhúsi og sjálfu Þjóðleikhúsinu og síðan auðum malarlóðum og fjölda niðurníddra húsa með neglt fyrir glugga en virti um leið fyrir sér háreista íbúðarturna, suma hálfbyggða, sem skaga upp úr gamalli, fíngerðri timburhúsabyggð milli Hverfisgötu og Skúlagötu myndi undrun hans sennilega aukast. Sendum hann svo upp að svokölluðum Hampiðjureit sem lítur út eins og stórtækt grjótnám í miðri byggð. Þaðan myndi hann sjá gríðamikinn opinn grunn milli Einholts og Þverholts en hvergi menn að verki og enga byggingarkrana. Svo færi hann inn að Höfðatorgsreit þar sem verið er að klæða 19 hæða turn gleri en bak við hann myrk auðn þar sem greinilega er búið að rífa niður allmörg hús en engar framkvæmdir í gangi. Þessi turn er augljóslega í engu samræmi við nálæga byggð og allra síst sögufrægt hús sem byggingarreiturinn er þó kenndur við. Þar að auki hefur komið í ljós að turninn skyggir á siglingarljós á turni Stýrimannaskólans. Setja þarf upp nýtt siglingarljós á kostnað skattborgara væntanlega. Hver ræður hér ferðinni, hvaða hagsmunir og hvaða metnaður, spyr hinn ímyndaði gestur, nuddar sitt glögga auga og hefur með þeirri spurningu lokið hlutverki sínu.

Rétt er að halda því til haga að hér er um að ræða tímabil sem einkenndist ekki aðeins af miklu ríkidæmi heldur líka metnaði sveitafélaga, byggingarfélaga og fjárfesta til uppbyggingar í takt við kröfur tímans um þéttingu byggðarinnar. Aldrei hefur verið byggt jafn mikið af íbúðar-, þjónustu- og atvinnuhúsnæði á jafn skömmum tíma á höfuðborgarsvæðinu. Aldrei hafa starfað hér á landi jafnmargir arkitektar og skipulagsfræðingar með jafn víðtæka menntun úr jafn mörgum skólum. Þess vegna voru allar forsendur síðustu tíu árin til að hér risi einstök byggð sem setti nýja mælikvarða á Íslandi. Byggð þar sem sérstök áhersla væri lögð á að bæta umhverfi almennings; götur, torg, garða, gangstéttar, almenningssamgöngur og fyrir alla muni fallegar húsaraðir sem mynda skjól en ekki stóra skugga eða vindstrengi. Byggð sem væri vistvæn og skapaði jöfnuð frekar en að ýta undir félagslegt misrétti. Einnig hefði mátt búast við frábærum arkitektúr sem sækti innblástur til þeirrar sérstöku byggðar sem hér er fyrir en einnig til landslags, veðurfars og birtuskilyrða. Vel má vera að einhvern tíma hafi þetta allt staðið til, en það hefur þá algerlega mistekist. Höfuðborgarbúar sitja nú uppi með einsleitan grágámaarkitektúr og skipulag sem virðist allt hafa gengið út á að skapa sem mest byggingarmagn og mesta „umferðarrýmd“, svo notað sé orðalag úr verkfræðiskýrslum.
Ástæðurnar fyrir þessari þróun eru eflaust margvíslegar; pólitískar og efnahagslegar og kannski menningarlegar. Eitt af stefnumálum R-listans var að snúa við stjórnlausri útþenslu byggðarinnar, eða því sem kallast urban sprawl á ensku. Það voru góðar ástæður fyrir þeirri stefnu. Útþenslan veldur sóun á dýrmætu landi, kallar á mikla bílaumferð og endalaus umferðamannvirki. Hún ýtir undir hnignun almenningsrýmis og aðgreiningu byggðarinnar í sundurslitin íbúðahverfi, þjónustuhverfi og atvinnuhverfi auk þess sem slík byggð verður oft einsleit og óaðlaðandi. Útþenslan hefur valdið því að um 50% lands á höfuðborgarsvæðinu fara undir umferðarmannvirki og helgunarsvæði bílsins. Hún hefur líka orðið til þess að umræða um skipulagsmál drukknar í endalausum kröfum og deilum um umferðarmannvirki. Við þekkjum það: Hringbrautin og fyrirhuguð Sundabraut og þráhyggjukenndur áhugi Sjálfstæðismanna bæði á þingi og í borgarstjórn að setja niður þriggja hæða mislæg gatnamót við Kringlumýrarbraut og Miklubraut.
Þétting er andlaust orð

Útþenslan verður að meinvarpi en ráðið við því heitir á Íslandi „þétting“. Í stað útþenslu, í stað þess að brjóta sífellt nýtt land undir byggð, skyldu vannýtt svæði, einkum úrelt iðnaðarsvæði í miðborginni og nálægt henni, byggð upp. Fyrirmyndin kom einkum frá Bretlandi og Bandaríkjunum. Í Bandaríkjunum varð til skipulagsstefna sem kallast „New Urbanism“ eða Ný borgarstefna. Markmið hennar er að endurreisa hina klassísku borg þar sem landið er nýtt undir þétta, blandaða byggð. Nýja borgarstefnan er í raun endurreisn gamalla gilda í borgarskipulagi. Árið 1993 héldu 2000 arkitektar og verkfræðingar þing í Chicago og stofnuðu samtök um þessa nýju borgarstefnuna. Þing samtakanna fyrir tveimur árum sendi frá sér opinbera stefnu sem hljómar einhvern veginn svona:

Við aðhyllumst skipulagsstefnu sem hefur það sem meginreglu að borgarhverfi séu fjölbreytt bæði hvað varðar mannfólk og starfsemi; að borgir og bæir skuli skipulagðir fyrir þá sem kjósa að fara fótgangandi leiðar sinnar, á hjóli, eða með almenningssamgöngum ekki síður en fyrir þá sem fara allt á bíl. … Við hönnun nýrra hverfa skal tekið mið af sögu staðarins, veðurfari, vistkerfi og byggingarhefðum

Í Bretlandi skipaði forsætisráðuneytið árið 1998 svokallaðan „Urban Task Force“ vinnuhóp undir forystu arkitektsins Richard Rogers. Verkefnið var að greina „hnignun borgarmenningar“ og að setja fram framtíðarsýn um „afbragðs góða og vel hannaða borgarbyggð þar sem félagsleg velferð og ábyrg umhverfisstefna væri höfð að leiðarljósi“. Hópurinn setti fram tillögur í 105 liðum og mælti með því að 60% af nýbyggingum í breskum borgum næstu 25 árin yrðu byggðar með endurnýjun gamalla borgarhverfa, aðallega úreltra iðnaðarhverfa. Hópurinn mælti einnig með því að 65% af opinberum fjárveitingum til samgöngumála yrði varið til að byggja upp almenningssamgöngur og hjóla- og göngustíga. Það segir sína sögu að viðmikil skýrsla sem hópurinn hefur gefið út í nokkrum hlutum, heitir „Towards an Urban Renissance“. Í orðunum felst hvorki meira né minna en fyrirheit um endurreisn borgarinnar með þeim eftirsóttu lífsgæðum sem gott borgarskipulag býr yfir. Ekkert slíkt fyrirheit býr í íslenska orðinu „þétting“.

Þétting er frekar andlaust orð. Það er áberandi í umræðunni um kosti þéttingar hér á landi hve nytjahyggjurökin hafa vegið þungt. Talað er um betri nýtingu lands, færri ekna kílómetra, meiri orkusparnað, minni rekstarkostnað og þar fram eftir götunum. Þéttingarstefnan var sett formlega á dagaskrá í svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið sem samþykkt var 2002 og gilti til 2024. Þegar hún kom til framkvæmdar reyndist hún ekki hafa neitt með lífsgæði að gera; bætt almenningsrými, framúrskarandi hönnun, félagslegan jöfnuð eða ábyrga umhverfistefnu. Í framkvæmd varð hún frítt spil fyrir fjárfesta og byggingarverktaka.
Þar með er komið að öðru atriði: Oftrú á svokallaða fjárfesta. Ríkjandi hugmyndafræði undanfarinna ára hefur verið sú að með hjálp markaðarins hafi fjárfestar alltaf rétt fyrir sér. Hlutverk hins opinbera átti ekki að felast í öðru en að skapa kjöraðstæður fyrir fjárfesta. Vandinn í Reykjavík var sá að útþensla byggðarinnar hafði verið greidd niður með gatnagerð, veitum og lögnum sem borgin sá um. Þétting byggðarinnar gat ekki hafist fyrr en fjárfestar og verktakar sáu að þeir gætu haft eitthvað upp úr því að byggja inni í miðri borg. Til að slíkt væri mögulegt þurfti að fara út í viðamikið deiliskipulag, sem virðist hafa verið trassað árum saman, þar sem ákveðnir reitir voru skilgreindir til uppbyggingar aðrir til verndunar. Það hleypti fjöri í markaðinn enda var miðborgin þá þegar komin í tísku. Stórfelld uppkaup á loðum hófust og mikil plön um uppbyggingu.
Aðferðin byggir á samvinnu hins opinbera og einkageirans þar sem fjárfestar og verktakar sjá um fjármögnun og framkvæmdir en skipulagsyfirvöld skapa aðstæður fyrir uppbyggingu með reglugerðum og deiliskipulagi. Þetta er áreiðanlega skynsamlegt fyrirkomulag svo lengi sem vandað er til verka og það haft að leiðarljósi sem ætti að vera markmið þéttingarinnar: Aukin umhverfisgæði. Það hlýtur að vera hlutverk skipulagsyfirvalda að sjá til þess að slík markmið séu virt. Reynslan sýnir þó að það getur verið snúið því hagsmunir fjárfesta og byggingarfélaga, sem hafa kostað miklu til við uppkaup lóða og veðjað á mikinn hagnað, eru miklir. Þrýstingur á stjórnvöld getur orðið gríðarlega mikill og alþekkt að slíkar aðstæður geta leitt til spillingar þar sem hótunum og mútum er beitt á víxl.
Hér er dæmi um hótun: Svokölluð Tívolí-lóð í Hveragerði gekk kaupum og sölum enda í miðri byggð og talin verðmæt. Og alltaf hækkaði verðið. Byggingarfélag sem að lokum eignaðist lóðina, eftir að hafa greitt fyrir hana himinhátt verð, setti fram tillögur um að byggja þar nokkur átta hæða fjölbýlishús. Dæmið var sett þannig upp að lóðin hefði verið svo dýr að fjárfestingin gengi ekki nema leyfi fengist fyrir svo háum húsum. Á móti kæmi að þau yrðu afar vönduð. Það var hins vegar yfirlýst stefna bæjarstjórnar að hámarkshæð húsa í Hveragerði skyldi vera fjórar hæðir og að svo há hús ættu raunar að vera undantekning. Talsmenn byggingarfélagsins sögðu þá við bæjarstjórann, Aldísi Hafsteinsdóttur (Sjálfstæðisflokki), að þeir yrðu að fá að byggja 8 hæða hús annars ekki gengju lóðakaupin ekki upp. Ef þeir fengju það ekki myndu þeir byggja nokkra fjögurra hæða „rússneska kumbalda“ eins ódýrt og mögulegt væri á lóðinni og selja. Í þessu tilviki gaf bæjarstjórinn sig ekki, jafnvel þótt það hefði verið freistandi vegna aukinna fasteignatekna. Með því að ganga að kröfunni hefði bæjarstjórnin í raun afsalað sér skipulagsvaldinu í bæjarfélaginu í hendur fjárfesta og verktaka. Hún hefði líka látið það viðgangast að byggingarfélag, sem tók sjálfviljugt þá áhættu að kaupa rándýra lóð, gæti velt áhættunni yfir á íbúa í lágreistum húsum í nágrenninu sem yrðu að sætta sig við að búa í skugganum af íbúðarturnum og stóraukna bílaumferð í hverfinu þeirra. Nákvæmlega það gerðist í stórum stíl á Höfuðborgarsvæðinu síðustu árin og eflaust miklu lengur.
Einkaframtakið hefur alltaf rétt fyrir sér

„Björgólfsfeðgar eru kóngar miðbæjarins“, þessari fyrirsögn var slegið upp í blaðinu Sirkus 17. ágúst 2007. Með frétt inni í blaðinu fylgdi kort þar sem mikill fjöldi húsa einkum milli Vatnsstigs og Frakkastígs og einnig milli Vitastígs og Barónsstígs var merktur þeim feðgum. Þeir höfðu keypt þau öll upp til að rýma fyrir miklum „þéttingaráformum“. Annars vegar ætlaði eignahaldsfélag þeirra Samson Properties að byggja eitt stykki listaháskóla, hins vegar nýjan miðborgarkjarna með verslunum, þjónustu,veitingahúsum, kvikmyndahúsum og íbúðum og að sjálfsögðu fjögurra hæða bílageymslu. Björgólfur Guðmundsson átti líka Hampiðjureitinn og svo var hann stjórnarformaður eignahaldsfélagsins Portus sem hefur verið að byggja tónleika og ráðstefnuhöllina á Austurbakkanum og ætlaði vist líka að skipuleggja og byggja upp fyrirhugað Reykjastræti sem átti að tengja tónleikahúsið við Lækjartorg. Við Reykjastræti áttu að rísa höfuðstöðvar Landsbankans, stórt hótel og svo stórhýsið WTCR, World Trade Center Reykjavík. Það stóð sem sé til að gera Ísland að einni að helstu miðstöð fjármálakerfisins í heiminum, rétt eins og helsti hugmyndafræðingur nýfrjálshyggjunnar Hannes Hólmsteinn Gissurarson hafði boðað árið 2002 í bók sinni Hvernig getur Ísland orðið ríkasta land í heimi? Þetta gekk ekki eftir og við sitjum uppi með mikla auðn og eitthvað sem líkist rústum. Enginn vafi leikur á að uppbyggingaráform Björgólfs Guðmundssonar voru mjög metnaðarfull. En það má spyrja hvort hann hafi ekki verið ofmetinn sem helsti hugsuður og skipuleggjandi miðborgarinnar. Það er engu líkara en yfirvöld hafi afsalað sér sjálfu skipulagsvaldinu. Á vissan hátt er það þó rökrétt því það hefur verið ríkjandi skoðun, nánast trúarsening, að árangur einkaframtaksins hljóti alltaf að vera betri en árangur hins opinbera. Að einkaframtakið hafi alltaf rétt fyrir sér.

Höldum nú þangað sem við vorum komin áðan. Upp á Höfðatorgsreit. Þar hefur byggingafélagið Eykt verið að byggja nýtt miðborgarhverfi sem er þegar farið að hafa veruleg áhrif á ásýnd borgarinnar, þótt það sé aðeins hálfbyggt og verði kannski aldrei klárað. Reiturinn afmarkast af Borgartúni og Skúlagötu, Höfðatúni og Skúlatúni. Þarna var áður atvinnu og skrifstofuhúsnæði og stórt plan sem tilheyrði vélamiðstöð Reykjavíkur. Gráupplagt svæði til enduruppbyggingar. Og þar sem borgin átti hluta reitsins var henni í lófa lagið að að leggja skýrar skipulagslínur. Borgin fékk þau Valdísi Bjarnadóttur og Gunnar Inga Ragnarsson, sem eru frumkvöðlar í hönnun vistgatna hér á landi, til að gera svokallaða forsögn að deiliskipulagi og þar með uppbygginu reitarins. Þau lögðu til að þarna risu fjögurra hæða hús alveg við götuna sem mynduðu hefðbundið borgarrými. Þau vildu að tekið yrði mið af byggðamynstri á svæðinu, meðal annars fallegum bogadregnum húsum á svæðinu, Ræsishúsinu og Söginni. Árið tvöþúsund, keypti byggingarfélagið Eykt reitinn og efndi til samkeppni um uppbyggingu. Þremur árum síðar var sagt frá því í Morgunblaðinu að Eykt ætlaði að byggja fjögurra hæða hús á þrjá vegu í kringum torg sem væri svolítið stærra en Ingólfstorg og á einum stað kæmi 16 hæða turn. Framkvæmdum á að vera lokið um mitt ár. Formaður Skipulags og byggingarnefndar Reykjavíkur var þá Steinunn Valdís Óskarsdóttir, R-lista. Svo líður og bíður. Fáeinum vikum eftir stjórnarskipti í borginni vorið 2006, lagði Eykt fram tillögu um stórfellda breytingu á fyrirhuguðu Höfðatorgi. Félagið hafði þá eignast allan reitinn upp að Skúlagötu og vild nú byggja þarna þrjá turna 19 hæða, 16 hæða og 14 hæða og að auki nokkur 7 og 9 hæða hús. Í tillögunni fólst ekki bara róttæk breyting á byggðinni, heldur líka á ásýnd Reykjavíkur.
Eykt lét fljótlega búa til glæsilegt kynningarprógramm þar sem Höfðatorgsbyggðin var kynnt sem nýtt miðborgarsvæði með blandaðri byggð með skrifstofum og íbúðum „fyrir kröfuharða“ og torg milli háhýsanna sem minnti ítalskt piazza. Og „gnægð bílastæða“.
Íbúum í nágrenninu, einkum í Túnunum sem höfðu fylgst náið með þróun mála, brá þegar þeir fréttu af tillögu Eyktar. Þriðjudaginn 31 október 2006 birtist í Morgunblaðinu lesendabréf Helgu Guðnadóttur íbúa við Miðtún. Hún segist hafa verið á fundi þar sem kynntar voru nýjar skipulagstillögur við Höfðatorg. Ég fékk hálfgert taugaáfall, skrifar hún. Ef þetta nýja skipulag verður að veruleika, þá er hægt að líkja húsunum okkar við eldpýtnastokk við hliðina á stórum Cherios-pakka, svo yfirþyrmandi sé stærðarmunurinn. Hún spyr hver vilji kaupa hús sem standi í skugga hárra turna. Hversu langt er hægt að leyfa peningöflunum að ganga hér í borginni, því þetta er ekkert annað en gróðafíkn nokkurra manna sem sjá sér leik á borði og taka að sér þéttingu byggðar sem er jú stefna borgaryfirvalda. Íbúarnir stofnuðu samtök til að berjast fyrir hagsmunum sínum. Þeir sögðu að höfðatorgshúsin yrðu alltof stór næði breytingartillagan í gegn og umferð myndi aukast gríðarlega. Þeim fannst að þeir þyrftu að sitja eftir í skugganum svo aðrir gætu notið sólar og útsýnis í turnunum. Þeim fannst að bæði borgin og byggingarfélagið sýndu mikinn yfirgang. Ekki bætti úr skák að sögur komust á kreik um að Eykt hefði ítök í öðrum borgarstjórnarflokknum.
Breytingartillaga Eyktar var samþykkt í skipulagsráði í mars 2007, með fjórum atkvæðum meirihlutans gegn þremur atkvæðum minnihlutans sem lét bóka að byggingarmagn á reitnum væri allt of mikið. Meirihlutinn lét bóka á móti að þetta yrði glæsileg byggð í góðu samræmi við yfirlýsta þétttingarstefnu og að samráð hefði verið haft við íbúa í nágrenni. Auk þess var því heitið að gert yrði átak til að fegra umhverfi og götur í Túnunum. Fáeinum dögum síðar var tilkynnt að Reykjavíkurborg hefði gert samning við verktakafyrirtækið Eykt um að leigja af því nýbyggingu við Borgatún 10-12 fyrir þrjú svið borgarinnar til 25 ára. Samtals myndi borgin borga Eykt fjóra milljarða í leigu á tímabilinu, án þess þó að eignast húsið. Varla þarf að taka fram að þessi viðskipti ýttu mjög undir þær kenningar Túnabúa að borgin og byggingarfélagið hefðu bundist í einhverskonar bandalag og skeyttu engu um hagsmuni íbúanna.
Höfðatorgssagan er lærdómsrík. Til að byrja með virðast borgaryfirvöld vilja fá þarna hefðbunda, þétta borgarbyggð, eins og tillögur Valdísar og Gunnars Inga gerðu ráð fyrir, þar sem tekið yrði tillit til byggðarinnar í kring. Kannski mætti tala um hófsama þéttingu. Hefði þeirri stefnu verið fylgt væri að öllum líkindum búið að byggja þarna nýtt borgarhverfi með blandaðri byggð. En byggingarfélagið Eykt var með miklu stærri plön og á endanum var því afhent skipulagsvaldið. Engar kröfur voru gerðar um að við hönnun hverfisins væri tekið mið af „byggingarhefðum og sögu staðarins“. Hér var heldur ekkert hugsað um félagslegan jöfnuð því hagsmunir íbúa í nágrenni voru virtir að vettugi, allt varð að lúta hagsmunum hinna „kröfuhörðu“, tilvonandi kaupendum. Það getur heldur ekki talist vottur um ábyrga umhverfisstefnu að sérstök áhersla skuli vera lögð á gnægð bílastæða í borg þar sem eru þegar fleiri bílastæði á íbúa en þekkist nokkurs staðar á byggðu bóli. Eftir á að hyggja er það líka dæmi um slæman pólitískan kúltur að svo stór ákvörðun um skipulag, sem kemur til með að hafa mikil áhrif á umhverfið í marga áratugi, skuli keyrð í gegn með svo naumum meirihluta. Þetta var á þeim tíma þegar borgarstjórinn í Reykjavík Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og bæjarstjórinn í Kópavogi Gunnar I Birgisson metuðust góðlátlega um það í fjölmiðlum hvor yrði fljótari að láta byggja hæsta turn landsins. Þetta var árið 2007. Gunnar vann. Eftir stendur heilmikil auðn kennd við Höfðatorg og tómur turn. Íbúar í Túnum fullyrða að búið sé að eyðileggja hverfið þeirra. Búið er að kaupa upp all mörg hús því spekúlantar veðjuðu á að hér yrði næsta niðurrifs- og uppbyggingarhverfi. Húsin eru leigð erlendu verkafólki til bráðbrigða og er lítið hirt um þau.

Samkeppni í stað samráðs
Uppbyggingin á Höfðatorgsreit fylgir stefnu sem mætti kalla stefnu hins algjöra niðurrifs og hinnar algjöru uppbyggingar. Hún felur þá skoðun í sér að saga staðarins og byggingarhefðir, eða „andi Reykjavíkur“ svo vitnað sé í merka bók Hjörleifs Stefánssonar arkitekts, skipti engu máli. Skýrasta dæmið um þá stefnu er auðvitað bygging Morgunblaðshallarinnar við Aðalstræti og niðurrif Fjalakattarins þar við hliðna löngu síðar. Þá var Davíð Oddsson borgarstjóri í Reykjavík. Þessi stefna hefur verið ríkjandi fram á þennan dag, jafnvel þótt það hafi lengi verið almennt viðurkennt að mörg af verstu skipulagsslysum borgarinnar megi rekja til hennar. Annað þekkt og mjög afdrifaríkt dæmi eru hinar miklu turnbyggingar við Skúlagötu alveg ofan í lágreistri timburhúsabyggð Lindargötu og Veghúsastígs. Þar voru merkileg hús úr atvinnu og byggingarsögunni rifin: Völundur og Kveldúlfshús. Á sínum tíma lagði Guðrún Jónsdóttir arkitekt fram tillögur um enduruppbyggingu á svæðinu sem tæki mið af þeirri byggð sem fyrir væri. Þeim tillögum var hafnað af fyrrnefndum borgarstjóra og formanni skipulagsnefndar árin 1982 til 1994 Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni. Þeir völdu fremur hámarksnýtingarstefnu byggingarfélaganna. Um leið komst sú lífsseiga saga á kreik að ákveðin byggingarfélög væru styrktaraðilar Sjálfstæðisflokksins.

Sömu stefnu algjörs niðurrifs og uppbyggingar var haldið áfram við þessa götu á tímum R-listans. Það vekur furðu vegna þess að R-listafólk hafði gagnrýnt þá Vilhjálm og Davíð fyrir þessa stefnu. En þegar farið er yfir árangur R-listans í skipulagsmálum borgarinnar virkar það sláandi að þrátt fyrir miklar umræður verndun og uppbyggingu og mikinn áhuga á að skapa öflugan miðbæ og manneskjuleg borgarumhverfi vildu hlutirnir taka einhverja allta aðra stefnu þegar til framkvæmda kom. R-listinn hélt áfram turnbyggð við Skúlgötu, R-listinn afhenti Eykt skipulagsvaldið við Höfðtorg. R-listinn hafði skipulagsvaldið þegar Borgartúnið byggðist með stakstæðum glerhýsum og risatórum bílastæðum allt í kring en engum gangstéttum og engri aðstöðu fyrir gangandi vegfarendur og hjólandi. Sú gata er nú orðin ímynd bílhverfs skipulags. En það var nákvæmlega þannig skipulag sem R-listinn ætlaði að forðast. Einnig má nefna Norðlingahlotið, nýtt hverfi sem reynist vera hannað í „dæmigerðum úthverfastíl með botnlöngum og safngötum og mikilli sóun landrýmis undir bílastæði“, svo vitnað sé Hrund Skarphéðinsdóttur skipulagsráðgjafa og verkfræðing. Því má bæta við að R-listinn setti sérstakt borgarfræðisetur, sem ber vissulega vott um faglegan metnað, var sett á laggirnar en ekki er að sjá að það hafi skilað miklum árangri. R-listann virðist hafa vantað staðfestu til að standa við eigin stefnu.
Höldum að lokum suður í Hafnarfjörð. Á leiðinni sjáum við splunkunýtt hverfi, svokallað Akraland sunnan í Arnarnesi. Þar virðist ekki búa ein sála. Það vekur líka athygli að húsin þarna, sem munu vera verðlögð hátt vegna staðsetningar, eru í mjög einsleitum gámastíl. Þetta hverfi var byggt af eignhaldsfélaginu Hanza. Við höldum áfram, keyrum niður Reykjavíkurveg, framhjá einum fallegasta lystigarði landsins Hellisgerði og þegar komið er niður að höfn blasir við þétt hverfi nýrra fjölbýlishúsa, svokallaður Norðurbakki. Þarna var Bæjarútgerðin áður en lítil áhersla virðist hafa verið lögð á að láta hinu einstöku timburhúsabyggð byggð í hrauninu þarna fyrir ofan vera innblástur við enduruppbygginguna. Hér er þéttingin að verki í bókstaflegum skilningi. Þessi hús gætu verið hvar sem er í heiminum. Það vekur athygli að enginn virðist vera fluttur í hverfið nema Sjálfstæðisflokkurinn með skrifstofu sína.

Árin sem við erum að kveðja einkenndust af samkeppni en ekki samráði. Það hefur komið í ljós að sveitafélögin höfðu hvert sína skipulagsstefnu. Þar gekk einna lengst bæjarstjórinn í Kópavogi sem kunnugt er. Metnaður hans til þéttingar virðist ekkert hafa að gera með samfélagslega ábyrgð eða löngun til að skapa manneskjulegt umhverfi. Þessi ár skilja eftir sig mikið af fullbyggðu en óseldu húsnæði. Þar liggur feiknmikið fjármagn, miklar skuldir og veruleg vandræði sveitafélaganna. Strax árið 2005 voru skýr teikn á lofti um að hér væru alltof margir byggingarkranar að verki. Tveimur árum síðar voru þau teikn himinhrópandi, sagði Ari Skúlason hagfræðingur og fyrrum forstöðumaður á fyrirtækjasviði Landsbankans í útvarpsþættinum Krossgötur 8. nóvember 2008. Engu að síður var haldið áfram að byggja og byggja. Í Reykjavík voru turnbyggingar Höfðatorgsins samþykktar, bæjarstjórinn í Kópavogi stóð í illdeilum við íbúasamtök og nágrannasveitafélög vegna stórfelldrar uppbyggingaráforma og bæjarstjórnin í Hafnarfirði samþykkti með fjórum atkvæðum gegn atkvæðum minnihlutans byggingu tveggja sjö hæða turna við gömlu Strandgötuna þar í bæ. Allt í nafni þéttingar byggðarinnar og þar með umhverfisvænnar stefnu. Það var staðalsvar sveitastjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu árið 2007 við allri gagnrýni. Eftir á að hyggja er engu líkara en að uppbyggingin hafi verið drifin áfram af blindum öflum. Fyrirhyggjan var engin. Flest byggingarfélaganna munu nú vera gjaldþrota.

Skoðum Strandgötuna í Hafnarfirði, þessa gömlu götu í eina heillega miðbænum á höfuðborgarsvæðinu fyrir utan miðbæinn í Reykjavík. Gáum fyrst að stefnumótun í aðalskipulagi Hafnarfjarðar fyrir árin 2005 til 2025. Þar stendur meðal annars að „sérkenni Hafnarfjarðar [skuli] varðveitt og megindrættir bæjarmyndarinnar styrktir með áherslu á fallega og heildstæða bæjarmynd“. Þar er líka talað um eiginleika og yfirbragð og menningararfleifð. Stefnan er sem sagt nokkuð skýr og undirskrifuð af bæjarstjóranum Lúðvík Geirssyni. En það vekur athygli að á lóðunum 24 til 26 er mikið gap þar sem áður voru hið fornfræga Hafnarfjarðarbíó og Kaupfélag Hafnarfjarðar. Þarna hafði verið unnið deiliskipulag sem gerði ráð fyrir fjögurra hæða húsum sem mynduðu tengsl milli hinnar klossuðu verslunarmiðstöðvar Fjarðarins og timburhúsabyggðarinnar í hrauninu fyrir ofan Strandgötu. Fyrrnefndur Hanza-hópur eignaðist reitinn og hafði allt aðrar hugmyndir. Hann kynnti fyrst áætlanir um að byggja þarna tvo 12 hæða turna en lækkaði þá niður í 9 hæðir á svokallaðri forstigskynningu sem hann fékk að halda vorið 2007. Þeim plönum var mótmælt harðlega, meðal annars af stjórnum Sjálfstæðisfélaganna í Hafnarfirði sem töldu að turnarnir pössuðu ekki inn í heildarmyndina og að þeir sköpuðu bæði skugga og vindstrengi. Leikar fóru svo að Hanza-hópurinn lækkaði turnana um tvær hæðir og sú tillaga var samþykkt með atkvæðum meirihlutans í lok árs 2007. Þessa aðferð Hanza-hópsins mætti kalla „sjokktreatment“. Hún felst í því að kynna fyrst tillögu að húsum í ofurstærð en gefa síðan nokkrar hæðir eftir niður í þá hæð sem alltaf var stefnt að. Með því móti finnst bæjaryfirvöldumm, og bæjarbúum stundum líka, að þeim beri að koma til móts við svo svo mikla tilslökun. að ekki megi slá á útrétta sáttahendi
Í Krossgötum 10. maí 2008 gagnrýndi Jónatan Garðarsson bæjarstjórna harðlega fyrir að virða ekki sitt eigið deiliskipulag, fyrir að afsala sér skipulagsvaldinu til byggingafélags sem hefur engar aðrar skyldur með starfsemi sinni en að skapa eigendum sínum ágóða. Undir það tók Gylfi Guðjónsson arkitekt í sama þætti 13. desember 2008 Hann hefur meira en 30 ára reynsluu af deiliskiplagsvinnu og vann meðal annars deiliskipulagið við Strandgötuna sem Hanza-hópurinn fékk numið úr gildi. Gylfi segir að bak við deiliskipulagsgerð liggi mikil vinna skiplagsráðgjafa, hann segir að umfjöllun í skipulagsnefndum og ráðum sé mikil og skýrar kvaðir um kynningarferli þar sem íbúar geta gert athugasemdir. Þetta er aðferð sem á að tryggja fagleg og lýðræðisleg vinnubrögð. Deiliskipulag felur í sér sátt um tiltekna uppbyggingu, segir Gylfi, og það er mjög mikilvægt. Allir hlutaðeigendur eru með það á hreinu hvers sé að vænta. Þess vegna þurfi að liggja fyrir mjög ríkar ástæður fyrir yfirvöld að rjúfa slíka sátt. Gylfi segir líka að það eigi ekki að gerast að verulegar breytingar á gildandi deiliskipulagi séu keyrðar í gegn með naumasta meirihluta. Það sé slæm pólitík og slæm skipulagsvinna.
Í dag situr bæjarstjórnin og bæjarbúar í Hafnarfirði uppi með stórt gap í miðbænum og splunkunýja byggð á Norðurbakka sem er að mestu auð.