Húsnæði er fallegt orð. Í því felst fyrirheit um öryggi og skjól. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, setur sér yfirleitt húsnæðisstefnu. Sú stefna gengur út á að tryggja að láglaunafólk, börn og ýmsir þjóðfélagshópar sem eru veikir fyrir, eigi kost á sómasamlegu húsnæði. Kjarninn í húsnæðisstefnunni hér á landi er félagslega íbúðakerfið. Eða öllu heldur var. Ég hef verið að lesa merkilega MS ritgerð eftir meistaranema í skipulagsfræði við Landbúnaðarháskólann, Egil Þórarinsson. Hún fjallar um húsnæðisstefnu og uppbyggingu lítilla íbúða á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2003 til 2008. Í ritgerðinni kemur fram að á þessu tímabili var byggt hlutfallslega mikið af stóru og dýru húsnæði en hlutfallslega lítið af litlu og ódýrara húsnæði.
Niðurstaða Egils er í stuttu máli sú að húsnæðisstefnan 2003 til 2008 hafi haft tvö einkenni: 1) hún virðist hafa ýtt undir þá þróun að fólk keypti sér stærra og stærra og dýrara húsnæði. 2) Hún vann gegn meginmarkmiði samfélagslegrar húsnæðisstefnu að tryggja láglaunafólki og viðkvæmum þjóðfélagshópum húsnæðisöryggi. Húsnæðisstefnan á þessum furðulega tímabili kom sér fyrst og fremst vel fyrir miðaldra fólk og eldri borgara sem skulduðu lítið í sinum eignum.
Stiklum á stóru, með hjálp Egils Þórarinssonar, um hina merkilegu sögu félagslega íbúðakerfisins á Íslandi 1929 Fyrstu lögin um verkamannabústaði, þökk sé Héðni Valdimarssyni, marka upphaf hins félagslega húsnæðiskerfis með sértækum aðgerðum fyrir láglaunafólk 1964 júní og júlíyfirlýsing um samkomulag Alþýðuflokks og Sjálfstæðisflokks, ASÍ og Vinnuveitendasambandsins um stórfelldar umbætur í húsnæðismálum láglaunafólks. Byggja á 250 íbúðir á hverju ári. Breiðholtið verður til. 1989 Húsbréfakerfið tekið upp. Það felur meðal annars í sér rýmkun lána til kaupa á eldra húsnæði. Auk þess er tekið upp nýtt niðurgreiðslukerfi lánanna í formi vaxtabóta. 1990 í stað verkamannaíbúða er nú talað um félagslegar eignaríbúðir. Stjórn verkmannabústaða lögð niður. Í hennar stað kemur Húsnæðisnefnd Reykjavíkur 1999 Viðbótalánakerfi leysir félagslega íbúðarkerfið af hólmi. Það heimilar tekjulágum að fá 90% lán af kaupverði íbúðar. 2004 Sértækum aðgerðum fyrir láglaunafólk á Íslandi hætt. Viðbótarlánin lögð niður.
Lagabreyting leiðir til þess að allir geta fengið 90% lán. Það átti með öðrum orðum að gera allt fyrir alla. Í rannsóknarskýrslu Alþingis kemur fram það álit sérfræðings hjá Seðlabankanum að þessi lagabreyting hafi verið með verstu hagstjórnarmistökum. Það kemur líka fram að Framsóknaflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn voru varaðir við afleiðingunum. En þeir létu það sem vind um eyru þjóta.