Mannkynið stefnir hraðbyri í heitan pott borganna á 21. öldinni. Mannfjöldaskýrslur, sem Byggðadagskrá Sameinuðu Þjóðanna, UN HABITAT, gefur reglulega út, spá sprengingu í vexti borga næstu áratugina. 1950 bjó þriðjungur mannkyns í þéttbýli. Árið tvöþúsund og átta náði þéttbýlisvæðingin því stigi að í fyrsta sinn bjó helmingur mannkyns, 3,3 milljarðar manna, í borgum og bæjum. Reiknað er með að árið 2030 muni 60% mannkyns búa þar. Í skýrslunum kemur fram að vöxtur borganna er talinn verða langmestur í Asíu og Afríku enda er borgarvæðingin komin styst á veg í þessum heimshlutum. Þróunin er komin mun lengra á Vesturlöndum: Þéttbýlisbúar þar voru um 75% af heildaríbúafjölda árið 2000. Árið 2030 verður sú tala komin upp í 85% ef svo fer sem horfir.
Ástæðan fyrir vinsældum þéttbýlisins er einfaldlega sú að fólk dregst að fólki. Borgir eru eitt risastórt sambýli. Þær bjóða upp á fjölbreyttari atvinnumöguleika en dreifbýlið, meiri menntun, fleiri hugmyndir, meira frjálsræði, meira stuð, fleiri veitingahús, leikhús, söfn og bíó, hærri laun, meira öryggi, minni ferða- og flutningskostnað og í mörgum tilfellum lengra líf. Borgir eru miðstöðvar viðskipta í heiminum, þær eru drifkraftur efnahagslífsins bæði heima fyrir og á hnattræna vísu, höfuðstöðvar menningar og vísinda, vagga skapandi hugsunar.

Borgarumhverfið er umhverfi sem okkur er búið og við búum okkur sjálf og börnum okkar. Gott borgarumhverfi gerir ekki upp á milli fólks, það skapar ekki bara hagstæðar aðstæður fyrir fólk sem hefur efni á kaupa rándýrar útsýnisíbúðir. Það skapar lífsgæði fyrir alla: börn og unglinga, fjölskyldur, einhleypa, barnlaus pör, gamalt fólk, öryrkja, gesti og gangandi. Gott borgarumhverfi einkennist af félagslegu réttlæti, skemmtilegu götulífi, góðum samgöngum, skjólsælum torgum, fallegum húsum og görðum; góðu vatni, heilnæmu lofti, nægu framboði af matvælum og skjóli fyrir veðri og vindum. Lélegt borgarumhverfi einkennist af skorti á þessu. Gott borgarumhverfi er eitt stærsta hagsmunamál mannkynsins.

Ákvarðanir sem hafa áhrif á líf okkar
Ákvarðanir sem stjórnvöld taka í Reykjavík, og í nálægum sveitafélögum, hafa mikil áhrif á líf okkar og framtíð barna okkar. Það sem hefur tekist vel, nýting heita vatnsins, uppbygging leikskóla og grunnskóla, skipulag útivistarsvæða, svo eitthvað sé nefnt, vitnar um framsýni og vönduð vinnubrögð. Við, höfuðborgarbúarnir, njótum þess. Þetta eru dæmi um ákvarðanir og framkvæmdir sem hafa gert Reykjavík að góðri borg til að búa í.

Því miður eru dæmi af hinu taginu allt of mörg. Þar hefur skammsýnin ráðið för og þjónkun við sérhagsmuni verktaka og fjárfesta. Undanfarna daga hefur komið í ljós að þeir hafa launað ríkulega fyrir sig með milljónagreiðslum til frambjóðenda og flokka. Ekki hefur bætt úr skák að smákóngar hafa blásið til samkeppni sveitafélaganna á höfuðborgarsvæðinu og hunsað allt samráð. Það er nóg að líta sem snöggvast yfir höfuðborgarsvæðið til að sjá afraksturinn. Í úthverfum blasa við hálftómar blokkir, auðar parhúsalengjur og heilu hverfin með tilbúnum götum, lóðum og lögnum en húsin vantar. Í miðborginni gnæfa tómir turnar sem taka ekkert tillit til umhverfisins, ekkert tillit til samfélagsins. Á höfuðborgarsvæðinu eru á milli 3 og 4 þúsund óseldar íbúðir, og nokkur hundruð þúsund fermetrar af óseldu atvinnu- og þjónustuhúsnæði að auki. Talið er að það sem hér gerðist sé hlutfallslega ein stærsta fasteignabóla sem þekkist á heimsvísu og hún hefur reynst okkur íbúunum mjög dýrkeypt. Hrun á faseignamarkaði blasir við. Fjölskyldur sitja uppi með miklar skuldir og óseljanlegar eignir. Sveitafélögin eru að sligast undan milljarðafjárfestingum í hverfum þar sem enginn býr. Þau þurfa nú að fara í niðurskurð á opinberri þjónustu, meðal annars í leikskólum og grunnskólum. Það þýðir að börn og unglingar verða látin borga brúsann fyrir óstjórn undanfarinna ára.

Verkefnin sem blasa við okkur höfuðborgarbúunum, og einkum og sér í lagi stjórnvöldum í borginni, eru mörg og vandasöm. Eitt það mikilvægasta hlýtur að vera að koma í veg fyrir að mistök og ábyrgðarleysi undanfarin ár bitni á börnum og unglingum. Við getum ekki látið það gerast, við megum ekki láta það gerast. Við eigum að leggja sérstaka áherslu á að vernda æskuna á þeim erfiðleikatímum sem nú eru. Það má ekki fækka skóladögum, þeir hafa lengi verið færri hér á landi en í flestum löndum innan OECD. Því miður hefur árangur íslenskra skólabarna í lesskilningi, náttúrufræði og stærðfræði í alþjóðlegum skólarannsóknum, PISA og Tims, verið eftir því. Af því getum við ekki dregið nema einn lærdóm; að efla skólastarfið. Og við ættum að stefna að því að hafa heitar máltíðir í öllum grunnskólum, endurgjaldslausar. Okkur ber líka að efla æskulýðsstarf með unglingum eins og kostur er og huga sérstakleg að því hvernig styrkja megi atvinnulaus ungmenni á aldrinum 18 til 24 ára. Sá hópur er í sérstakri hættu að lenda utanveltu í samfélaginu með brotna sjálfsmynd á þeim erfiðu tímum sem við lifum. Við höfum ekki efni á að vanrækja þennan hóp.

Við, höfuðborgarbúarnir, skulum að leyfa okkur að vera hugsjónafólk. Það er miklu gjöfulla til lengdar en öll sérdrægnin sem hefur einkennt samfélagið undanfarin ár. Við þurfum ekki að fara langt til að leita fyrirmynda. Árið 1930, ári eftir að heimskreppan kreppan mikla skall á með tilheyrandi verðfalli og atvinnuleysi, tók Austurbæjarskólinn í Reykjavík til starfa. Þessi stóri og fallegi skóli, teiknaður af Sigurði Guðmundssyni, skrýddur með lágmyndum Ásmundar Sveinssonar, er fyrsta húsið í Reykjavík sem hitað er upp með hitaveituvatni. Þetta sama ár var ákveðið að færa skólaskylduna niður um 2 ár, þannig að börnin hæfu skólagönguna 8 ára gömul en ekki 10 ára. Í skólanum voru 30 almennar kennslustofur. Auk þeirra voru margar sérgreinastofur: teiknistofa, kennslueldhús, smíðastofa, sundlaug, fimleikasalur, handavinnustofa, samkomusalur fyrir skemmtanir, kvikmyndasýningar og söngsalur. Einnig sérbúnar náttúrufræði- og landafræðistofur velbúnar kennslugögnum. Í sögu skólans (http://www.austurbaejarskoli.is) kemur fram að þetta kallaði á nýja og frjálslegri kennsluhætti. Til að mynda voru frá upphafi þéringar felldar niður og ákveðið að börnin gengju frjáls inn í skólann en skipuðu sér ekki í raðir úti í porti.

AusturbæjarskoliBygging Austurbæjarskólans, ásamt lagningu hitaveitunnar, er ein aðdáunarverðasta framkvæmd Reykjavíkursögunnar. Þrátt fyrir að margar og metnaðarfullar skólabyggingar hafi risið undanfarin ár á höfuðborgarsvæðinu, og að þar sé merkilegt skólastarf unnið á hverjum einasta degi, er Austurbæjarskólinn áminning um það sem hefur skort allra síðustu árin í íslensku samfélagi: pólitísk framsýni og byggingarstefna knúin áfram af samfélagslegri hugsjón. Auk þess virðist samstarf borgar og ríkis þá hafa verið til fyrirmyndar. Það hefur því miður verið í skötulíki síðari árin. Þeir sem fara með ríkisvaldið á hverjum tíma, og jafnvel sjálfir þingmenn Reykvíkinga, virðast hafa lítinn metnað fyrir hönd höfuðborgarinnar og engan skilning á því að það skiptir miklu máli hvar opinberar stofnanir eru hafðar til húsa. Afhverju er búið að flytja Námsgagnastofnun frá Reykjavík, þar sem eru langflestir skólarnir, út í smáiðnaðarhverfi í Kópavogi? Og afhverju er búið að flytja Hjartavernd frá Barónsstíg, og þar með næsta nágrenni við Landspítalann-Háskólasjúkrahús, í áttahæða blokk á eyðisvæði sunnan Smáralindar. Hversu mikil huggun er það fyrir hjartveika að þar séu „næg bílastæði“?

Framtíðarsýn sem brást
Af dýrkeyptum mistökum og ábyrgðarlausri pólitískri stefnu liðinna ára, hljótum við höfuðborgarbúarnir að draga meðal annars þann lærdóm að ekki er nóg að móta almenna stefnu í málefnum borgarinnar. Það þarf að ríkja sátt um að láta stefnuna vera annað og meira en orðin tóm. Það er nauðsynlegt að binda hana í lög. Árið 2002 gekk í gildi svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið sem á að gilda til 2024. Mikil vinna skipulagsfræðinga, arkitekta, sveitastjórnarfólks og erlendra sérfræðinga var lögð í skipulagið, enda mikið í húfi.

Í svæðisskipulaginu er að finna framtíðarsýn sveitarfélaganna átta á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu og þróun byggðar næsta aldarfjórðunginn. Hugtakið sjálfbær þróun er þar rauður þráður og það meginmarkmið sett að „þétta byggðina, tengja betur saman búsetu og atvinnu, efla almenningssamgöngur og tryggja að höfuðborgarsvæðið þróist áfram sem nútímalegt borgarsamfélag“. Svæðisskipulagið átti einkum að ná til landnotkunar, byggðaþróunar, samgöngumála og umhverfismála. Það er skemmst frá því að segja þessi mikilvægu markmið hafa ekki náðst. Byggðin hefur sjaldan virkað jafn sundurlaus og hráslagaleg. Almenningssamgöngur hafa verið látnar reka á reiðanum með þeim árangri að hér varð til einhver stærsti bílafloti í heimi, miðaða við íbúafjölda. Um það bil helmingur alls lands á höfuðborgarsvæðinu er nú lagður undir samgöngumannvirki og veghelgunarsvæði bílanna. Blekið hafði varla þornað á greinargerð fyrir metnaðarfullu svæðisskipulaginu, þegar blásið var til samkeppni sveitafélaganna í stað samráðs. Samkeppnin fólst í því að sveitafélögin reyndu að láta byggja eins mikið og mögulegt var á sem skemmstum tíma meðþeim árangri að byggðaþróunin fór úr böndunum, eins og rakið var hér að ofan. Skipulagsvaldið var í raun fært í hendur blindra byggingarafla. Svæðisskipulagið er ónýtt plagg vegna þess að sveitafélögin kusu samkeppni í stað samráðs og ákváðu að taka ekkert mark á skipðulaginu, sagði skipulagsstjóri ríkisins Stefán Thors í viðtali á Rás eitt á alþjóðlega skipulagsdaginn í nóvember 2008.

Bráðnauðsynleg þétting byggðarinnar hefur því miður of oft reynst vera skálkaskjól fyrir blygðunarlaust lóðabrask og óhóflegt byggingarmagn, jafnvel í gamalgrónum hverfum. Allt of oft hefur því verið leyft að gerast að íbúar í næsta nágrenni við þéttingarsvæði telja sig standa frammi fyrir bandalagi borgaryfirvalda, verktaka og fjárfesta. Þeir hafa upplifað vanmátt og réttindaleysi gangvart óskilgreindu, en ósigrandi, afli þar sem pólitík og peningar hafa runnið saman í eitt. Hlutskipti íbúanna í Túnunum í næsta nágrenni við svokallaðan Höfðatorgsreit er dapurlegt dæmi. Þeir höfðu mótmælt róttækum breytingum sem samþykktar voru á deiliskipulagi reitsins í byrjun árs 2007, og fólu í sér að heil turnbyggð átti að rísa þarna. Íbúnunm fannst að þeim væri gert að sitja í skugganum svo aðrir gætu notið sólarinnar í glæsilegum glerturnum. Komið hefur í ljós að fáeinir frambjóðendur og einn stjórnmálaflokkurinn hafa þegið háar peningaupphæðir frá byggingarfélaginu sem stóð fyrir framkvæmdunum og fékk það í gegn að gildandi deiliskipulagi, var kollvarpað.

Heildarsýn
Hvað er þá til ráða? Jú, við þurfum í yrsta lagi að temja okkur meiri heildarsýn. Borgir eru stókostlega merkileg sambýli. Höfuðborgarsvæðið er sambýli. Við getum ekki látið það viðgangast lengur að sveitafélögin átta á svæðinu hafi hvert sína skipulagsstefnu. Það hefur reynst okkur of dýrkeypt. Við eigum að binda náið samráð þeirra á sviði landnotkunar, byggðaþróunar, samgangna og umhverfismála í lög.

Rétt er að íhuga hvort ekki sé rétt að koma á laggirnar einskonar „höfuðborgarsvæðisstjórn“ sem hefði það verkefni, og skýrt valdboð, að samræma byggðaþróun, samgöngur, umferðamannvirki og umhverfismál. En sveitafélagin átta á höfuðborgarsvæðinu héldu samt áfram að starfa sem sjálfstæðar einingar. Við, borgararnir, þurfum ekki á smákóngaveldinu að halda.

Við þurfum einnig að hyggja að því hvernig réttur íbúa er sem best tryggður gagnvart umfangsmikilli uppbyggingu í næsta nágrenni. Það má að vísu ekki leiða til þess að íbúar geti stöðvað allar framkvæmdir í hverfinu sínu. En réttur þeirra þarf að vera skýr. Íbúarnir þurfa til að mynda að geta leitað til sérfræðings, sem væri nokkurskonar umboðsmaður íbúanna, sem skýrði út fyrir þeim tölur um byggingarmagn, hæðir, nýtingarhlutfall, skuggavarp, umferðaspár og þar frameftir götunum.
Reynsla liðinna ára sýnir einnig að séreignakerfið er um margt gallað. Það getur steypt fólki í mikil vandræði og skuldaklafa sem verður því ofviða. Rétt er að kanna hvort félagslegt húsnæðiskerfi geti ekki hentað sumum íbúanna betur.
Við þurfum líka að innleiða siðbót í stjórnmálin á sveitastjórnarstiginu og í landsmálunum. Við skulum rjúfa hið óheillavænlega samtryggingarkerfi fjármagns, flokka og frambjóðenda með skýrri lagasetningu