Athugasemdafrestur vegna nýs aðalskipulags Reykjavíkur fyrir árin 2010 til 2030 rann út í síðustu viku. Það hefur verið í vinnslu í sex ár og kynnt í tvígang á fjölmennum íbúafundum í öllum hverfum borgarinnar. Næstu vikur munu skipulagsyfirvöld fara vandlega yfir athugasemdir sem hafa borist.

Skipulagið markar tímamót. Með því er horfið frá bílmiðuðu skipulagi borgarinnar, sem hefur ríkt hér í 50 ár, og tekið upp skipulag sem setur manneskjuna í öndvegi. Hvers konar skipulag er það? Jú, þannig skipulag leggur ekki sífellt nýtt land undir byggð heldur þéttir byggðina sem fyrir er og styttir þannig vegalengdir í borginni. Það leggur áherslu á gatnakerfi þar sem vistvænir ferðamátar eru í fyrirrúmi. Það skapar meira öryggi og betri lýðheilsu. Það takmarkar hæðir húsa og verndar gamla borgarhluta. Það leggur áherslu á almenningsrými og mannlega mælikvarða. Það skapar meira skjól og samfelldari húsaraðir. Það verndar græn svæði.

Þetta eru góðar fréttir fyrir borgarbúa, ekki síst þá sem búa austast í borginni. Gert er ráð fyrir að á tímabilinu 2010 til 2030 fjölgi Reykvíkingum um rúmlega 20 000. Ef reist verða ný úthverfi á útivistarsvæðunum austan við núverandi byggð verður þrengt verulega að fólkinu sem býr nú þegar við borgarjaðarinn á mörkum náttúru og byggðar. Þá verða úthverfi að innhverfum og bílaumferðin á stofnbrautum borgarinnar austur og vestur kvölds og morgna margfaldast. Það mun lengja vegina í borginni, kalla á óhemju dýrar framkvæmdir við umferðamannvirki, auka svifryksmengun og vinna gegn almenningssamgöngum, hagkvæmri nýtingu innviða og skynsamlegri landnýtingu. Það er algjörlega glatað.

Hinar góðu fréttirnar er skýr fókus í aðalskipulaginu á sjálfbærari borgarhverfi. Fókusinn beinist að því hvernig hverfin geta sem best notið sín hvert á sinni forsendu og að því hvernig efla megi þjónustu inn í hverfunum. Aðalskipulagið leggur til að mynda bann við því að matvöruverslanir verði opnaðar á athafnasvæðum utan við íbúabyggðina. Slíkt fyrirkomulag rústar hverfisþjónustunni