Undanfarin misseri hefur átt sér stað hljóðlát bylting í Reykjavík. Þetta er grasrótarbylting því það eru íbúarnir sjálfir sem standa fyrir henni. Hún felst í því að æ fleiri borgarbúar hafa sett á sig hlaupaskó og gönguskó og skokka um borgina. Reiðhjólafólki fjölgar að sama skapi með ævintýralegum hætti. Eftir vinnu á virkum dögum og um helgar er svo mikill fjöldi að hlaupa, ganga og hjóla á stígum borgarinnar, til að mynda á Ægissíðu og í Fossvogsdal, að það liggur við „umferðaröngþveiti“ . Samt hefur stígakerfið verið tvöfaldað á þeim slóðum. En einmitt það hefur leitt til þess að þangað leita æ fleiri. Tölurnar tala sínu máli. Það kom fram í fréttum um daginn að fjöldi hjólreiðamanna í borginni hefur þrefaldast á fjórum árum. Að einhverju leyti gerist þetta af sjálfu sér því hjólreiðar eru í tísku vestan hafs og austan. En reynslan sýnir samt að það skiptir mjög miklu máli að borgaryfirvöld setji fram og framfylgi metnaðarfullri hjólreiðastefnu, eins og gert hefur verið í Reykjavík. Búið er leggja eins konar hjólahraðbraut meðfram Suðurlandsbraut, göngu og hjólabrú yfir Elliðaárósa er langt komin og verið er að leggja varanlega hjólastíga í Borgartúni, við Hverfisgötu, Frakkastíg og Sæmundargötu. Reykjavík hefur alla burði til að vera frábær hjólaborg, rétt eins og hún er frábær útivistarborg yfirleitt. Sama er að segja um borgarhlaupin. Þau eru í tísku. 214 hlauparar frá 10 löndum tóku þátt í fyrsta Reykjavíkurmaraþoninu árið 1984. Í fyrra voru þátttakendur 60 sinnum fleiri eða 13 410. Það hefur heldur ekki gerst alveg af sjálfu sér. Íþróttafélög, Íþróttabandalag Reykjavíkur og fjöldi sjálfboðaliða hafa unnið markvisst að því árum saman, í góðri samvinnu við borgaryfirvöld , að gera Reykjavík að alvöru hlaupaborg. Sérfræðingar um lýðheislu beina nú athygli sinni að skipulagi borganna. Hinn mikli áhugi á borgarhlaupum og hjólreiðum er áreiðanlega eitt af því besta sem gerst hefur í Reykjavík og öðrum borgum heimsins undanfarin misseri.
Fréttir & pistlar
- List fyrir alla – Fjórði þáttur 29.01.2022
- Áfram nýja Reykjavík 19.01.2022
- List og menning í Reykjavík 2030 16.11.2021
- „Enginn verði útundan í nýrri menningarstefnu” 18.08.2021
- Kominn tími á umbætur á Ylströndinni í Nauthólsvík 24.03.2021
- Framtíðaráætlun fyrir Reykjavík 02.03.2021
- Borgarlína – já takk 30.10.2020
- Bræður mínir 01.12.2018
- Hjálmar Sveinsson um borgarmál 25.02.2018
- Listamaðurinn sem helgaði sig borginni 20.06.2017