Á gráum rigningardegi í desember 1970 gekk þýskur kanslari með krans að minnismerki um útrýmingu gyðinga í Varsjá, lagði hann niður og lagaði til, eins og prókollið gerði ráð fyrir og lét svo, öllum að óvörum, fallast á hnéin. Það liðu 30 sekúndur þangað til hann stóð á fætur og virtist berjast við tárin, skrifaði blaðamaður Süddeutsche Zeitung sem var á staðnum.
Blaðaljósmyndir af knéfallinu vöktu mikla athygli og áttu sinn þátt í að Brandt varð einn þekktasti og virtasti stjórnmálamaður þess tíma. Hann varð víða tákngervingur fyrir „góðan Þjóðverja“. Tímaritið Time kaus hann „Mann ársins“. En í Vestur-Þýsklandi voru skoðanir skiptar. Hann var fyrsti þýski kanslarinn til að heimsækja Pólland eftir stríð. Samkvæmt skoðanakönnunum fannst mörgum Vesturþjóðverjum knéfallið óviðeigandi og yfirdrifið.
Sumir hægri menn tóku svo djúpt í árinni að kalla hann landráðamann. Það verður að teljast hámark ósvífninnar. Willy Brandt hafði tekið virkan þátt í andspyrnu gegn nasistum og lagt líf sitt í hættu. Með því að láta fallast á hnéin í Varsjá gekkst hann, af öllum mönnum, við þeim hroðalegu glæpum sem nasistar höfðu framið í Póllandi. Spiegel blaðamaðurinn Hermann Schreiber skrifaði: „Svo krýpur hann, sem hefur ekki ástæðu til að krjúpa, fyrir þá sem hafa mikla ástæðu til að krjúpa – en hætta ekki á það, geta það ekki eða geta ekki hætt á það“
Ég hef skrifað um þessa frægu ljósmynd áður og geri það aftur í tilefni dagsins. Það eru nákvæmlega hundrað ár síðan Willy Brandt fæddist. Hann var skírður Herbert Frahm og ólst upp við fátækt í verkamannahverfi í Lübeck, sonur einstæðrar móður. Hann gekk í Sósíalíska verkamannaflokkinn (SAP) og hefði líklega orðið blaðamaður ef Hitler hefði ekki brotist til valda árið 1933. Þá sá Herbert Frahm sína sæng uppreidda og flúði með á báti til Kaupmannahafnar og þaðan til Osló og sagðist upp frá því heita Willy Brandt.
Hann bjó í tólf ár í útlegð í Noregi og svo Svíþjóð, þangað sem hann flúði eftir að Þjóðverjar hertóku Noreg. Síðar sagðist honum svo frá að hann hafði lifað ósköp venjulegu lífi þessi ár. Það verður að teljast varlega áætlað því vitað er að hann lagði líf sitt í hættu í andspyrnunni gegn nasismanum, hvað eftir annað. Hann fór meðal annars til Berlínar undir dulnefninu Gunnar Gaasland og þóttist vera norskur stúdent, aðdáandi þýskrar menningar.
Brandt varð sósíaldemókrati í Skandinavíu , fékk aftur þýskan ríkisborgararétt 1948 og gerðist á sama ári aðstoðarmaður borgarstjórans í Vestur-Berlín Ernst Reuters. Sjálfur var hann kjörinn borgarstjóri 1957 og varð mjög vinsæll. Hann þótti standa sig sérstaklega vel þegar múrinn var reistur í ágúst 1961 því hann gagnrýndi ofbeldi kommúnismans harðlega en lét Vesturveldin líka heyra það fyrir að láta austurblokkina komast upp með þetta. Á þessum árum fannst Vesturberlínarbúum þeir vera mjög einangraðir og að vinaþjóðir og allir pólitíkusar hefðu brugðist, nema borgarstjórinn þeirra.
Engu að síður var það einmitt Willy Brandt sem mótaði nýja „austurpólitík“ undir mottóinu „Wandel durch Annäherung“ ásamt sínum nánasta samstarfsmanni Egon Bahr. Sú stefna fól í sér að samræðupólitík væri líklegri til að leiða til samfélagslegra umbóta en störukeppni kalda stríðsins.
Brandt varð kanslari 1969 í samsteypustjórn Jafnaðarmanna og Frjálsra demókrata. Í frægri stefnuræðu sinni, sem hann hélt í október þetta ár innblásinn af stúdentaóeirðum og þjóðfélagsumróti þessara tíma, sagði hann: „Við getum ekki skapað fullkomið lýðræði, en við viljum samfélag sem býður meira frelsi og krefst meiri samábyrgðar“. Hann lofaði þjóðinni líka gagnsæi í stjórnsýslunni og sagði að ríkisstjórn sín myndi lækka kosningaldur og lögráðaaldur. Ein setning ræðunnar er fyrir löngu orðin orðatiltæki í Þýskalandi: „Við viljum hætta á meira lýðræði“ (Wir wollen mehr Demokratie wagen)
Í dag, 44 árum síðar, er krafan um meiri valddreifingu, og um leið valdeflingu borgaranna, gagnsæa stjórnsýslu og meiri ábyrgð stjórnmálanna rauður þráður í því sem mætti kalla lýðræðisvæðingu samfélaganna. Íbúalýðræði, þáttökulýðræði, rökræðulýðræði, þjóðfundir og hvað þetta heitir nú allt saman. Útfærslurnar eru margvíslegar. Lýðræðisumbæturnar eru nær alls staðar á dagskrá.
Brandt fékk friðarverðlaun Nóbels fyrir austurpólitíkina 1971 en pólitískir andstæðingar hans á þinginu efndu til vantrauststillögu í apríl 1972. Hún var felld með naumum meirihluta. Í kjölfarið var efnt til nýrra þingkosninga og þá unnu jafnaðarmenn undir forystu Brandts stærsta sigur í sögu flokksins sem fékk 45,8 prósent atkvæða. Löngu síðar kom í ljós að sovéska leyniþjónustan hafði áhrif á atkvæðagreiðsluna í þinginu um vantrauststillöguna.
Bandt var elskaður og hataður. Það mun hafa honum komið á óvart eftir að hann kom aftur til Þýskalands og hellti sér í pólitík að það var alls ekki talið honum til tekna að hafa yfirgefið Þýskaland á nasistatímanum. Pólitískir andstæðingar reyndu sífellt að gera hann tortryggilegan. Konrad Adenauer þóttist aldrei muna hvort hann héti nú Brandt eða Frahm og Franz Josef Strauss sagði í þingræðu 1963 „Við vitum í rauninni ekkert hvað herra Brandt gerði þessi 12 ár sem hann yfirgaf Þýsklaland en við sem vorum um kjurt vitum nákvæmlega hvað við gerðum“.
Í maí 1974 ákvað Willy Brandt að segja af sér. Það hafði komið á daginn að einn af aðstoðarmönnum hans, Günter Guillaume, reyndist vera stasinjósnari. Skömmu síðar var flett ofan af svolítið skrautlegum kvennamálum Brandts, sem var þrígiftur, og allt lagt út á allra versta veg, ekki síst af fáeinum áhrifamiklum flokksfélögum hans sjálfs. Þá fékk hann nóg. Sumir álíta að hann hafi í raun verið svikinn af samflokksmönnum og samstarfsflokknum sem bar ábyrgð á því að ekki var flett ofan af Guillaume löngu fyrr. Við kanslarembættinu tók Helmuth Schmid en Brandt átti mörg góð ár eftir í pólitíkinni sem formaður þýska jafnaðarmannaflokksins. Hann lést í október 1992, 78 ára gamall.
Síðustu daga og vikur hefur verið fjallað mikið um Willy Brandt í þýskum fjölmiðlum og flestum ber saman um að hann eigi stærri stað í hjörtum Þjóðverja en nokkur annar þýskur kanslari fyrr og síðar. Der Spiegel kallar hann hjartakanslarann í ítarlegri grein sem nefnist FÖÐURLANDVINURINN. Í greinarflokki í Die Zeit er slegið upp spurningunni: Af hverju getum við ekki gleymt honum?