Hjálmar Sveinsson

á æskuslóðum í Hlíð í GnúpverjahreppiÉg ólst upp í Hafnarfirði og á bænum Hlíð í Gnúpverjahreppi.

Árin 1986 til 1997 bjó ég í Vestur-Berlín. Þar sá ég Múrinn falla og veit síðan þá að ekkert er ómögulegt. Römmustu virki óréttlætis geta fallið á svipstundu.

Er með BA-próf í heimspeki og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og er MA í heimspeki, þýskum fræðum og bókmenntum frá Freie Universität Berlin.

Hef starfað lengi við fjölmiðla, þar af 12 ár sem dagskrárgerðarmaður við RÚV. Þar var ég umsjónarmaður þáttanna Spegillinn og Krossgötur.

Hef skrifað og gefið út nokkrar bækur um íslenska listamenn. Stofnaði árið 2000 fræðibókaritröðina ATVIK og bókaútgáfuna OMDÚRMAN árið 2007, ásamt Geir Svanssyni og Irmu Erlingsdóttur.

Starfaði í mörg sumur sem leiðsögumaður á hálendi Íslands. Ég hef stundað kennslu við Listaháskóla Íslands og við Endurmenntunarstofnun HÍ.

Konan mín heitir Ósk Vilhjálmsdóttir. Hún er myndlistarmaður, fjallageit og hlaupadrottning. Börnin heita Borghildur, Hulda Ragnhildur og Vilhjálmur Yngvi.

Bauð mig fram fyrir Samfylkinguna fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2010. Ég er fyrsti varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar, stjórnarformaður Faxaflóahafna og varaformaður umhverfis og skipulagsráðs. Sumarið 2010 var ég kjörinn í umbótanefnd Samfylkingarinnar.